„Nemendum og kennurum við skólann finnst gaman að koma inn á íslenskt heimili og borða íslenskan mat. Fólk er þakklátt og finnst þetta gaman. Það er líka gott að nota túnið við Ægisíðu og sprella aðeins,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og í forsvari fyrir sumarskóla um smáríki, en hann bauð venju samkvæmt nemendum og kennurum í gleði og glaum á heimili sínu í gær.

Þar var farið í pílukast, fótboltaspil og ýmislegt fleira, en Baldur og eiginmaður hans, Felix Bergsson, hafa boðið upp á grill og leiki á túninu við Ægisíðu þegar sumarskólanum er að ljúka. Lokapróf fer fram á laugardag frá skólanum.

Sumarskóli um smáríki fjallar um styrkleika og veikleika smáríkja og hefur skólinn verið starfræktur í 20 ár með styrk frá Erasmus+, áætlun Evrópusambandsins. Skólinn er einnig með hraðprógrömm að vetrarlagi í Tallin, Vilníus, Kaupmannahöfn og Ljubljana og er unnið með þema í þrjú ár þar til því er breytt.

Baldur segir að nemendafjöldinn nálgist um átta hundruð á þessum 20 árum með námskeiðunum erlendis.

„Það sem mér finnst gaman að sjá er að margir af þessum nemendum halda áfram að einblína á smáríki og skrifa meistararitgerðir og doktorsritgerðir um lítil ríki. Og nú erum við með kennara við skólann sem voru nemendur í skólanum á sínum tíma.“

„Nú erum við með kennara við skólann sem voru nemendur í skólanum á sínum tíma.“

Að þessu sinni var þemað um hvernig smáríki geta verið leiðandi og haft áhrif á heimsvísu. „Þau þurfa að beita tilteknum aðferðum og leiðum til að hafa áhrif. Til dæmis er mjög mikilvægt fyrir lítið ríki að forgangsraða. Lítil ríki hafa minna fjármagn, stjórnsýslan er minni og tengslanetið úti í hinum stóra heimi er minna. Smáríki þurfa að einblína á fáa málaflokka og reyna að vera best í þeim.“

Baldur segir að einnig sé fjallað um styrkleika og veikleika lýðræðis í litlum samfélögum en lítil ríki eru oft sögð lýðræðislegri og minna spillt en þau stóru.

„Alþjóðlegir mælikvarðar ná hins vegar oft ekki utan um nándina og frændhygli í litlum samfélögum, sem geta leitt til þess að það verði meiri fyrirgreiðsla til frændans eða vinarins en í þessum stóru löndum.

Tengsl stjórnmálamanna og sterkra hagsmunahópa eru oft umtalsverð í litlum ríkjum og það getur leitt til spillingar og haft áhrif á gang lýðræðisins.“