Konan úr bakvarðasveit heilbrigðisstarfsmanna, sem er grunuð um að hafa falsað skjöl um menntun og starfsleyfi, hefur áður verið kærð fyrir fjársvik. Fréttablaðinu hefur þá borist fjöldi ábendinga með sögum af meintum svikum konunnar.

Sögurnar eru hátt í tuttugu talsins og greina frá fjölda atvika þar sem konan á að hafa logið og reynt að svíkja pening út úr fólki. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti við fréttastofu Stöðvar 2 í dag að konan hefði verið kærð fyrir fjársvik í fyrra.

Besta vinkona menntamálaráðherra

Örvar Friðriksson, kerfisfræðingur lagði fram kæruna í maí í fyrra, þar sem hann segir konuna hafa svikið úr sér fé. Í samtali við Fréttablaðið staðfestir Örvar þetta. Hann réð hana sem lögfræðing til að sinna ákveðnum störfum fyrir fyrirtæki sitt.

Hann segir konuna hafa unnið fyrir sig í eina viku og sagst vera með meistaragráðu í lögfræði frá háskóla í Edinborg og vera besta vinkona Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Grunsemdir um að konan væri að ljúga til um menntun sína komu þó upp bráðlega: „Það kom okkur spánskt fyrir sjónir að lögfræðingur með meistaragráðu frá Edinborg gat ekki skrifað rétt,“ segir Örvar.

Örvar hafði þó lagt hálfa milljón inn á konuna en þegar hann reyndi að fá peninginn til baka segir hann hana hafa neitað að afhenda hann og því kærði hann hana fyrir fjársvik. Það mál er enn í rannsókn hjá lögreglunni.