Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 18. desember 2020
22.30 GMT

Ástarsaga þeirra Önnu og Óla er ekki eins og margar aðrar ástarsögur. Saman eiga þau tvö börn, auk þess sem Anna átti fyrir dótturina Ölmu, þá sem grófst undir snjóflóðinu sem fór yfir varnargarðinn á Flateyri þann 14. janúar síðastliðinn. En þó að Anna og Óli hafi kynnst fyrir löngu og samband þeirra hafi borið þennan ríkulega ávöxt hafa þau ekki alltaf verið samferða, en eru það sannarlega nú.

Blaðamaður settist niður með þeim Önnu og Óla í Íshúsi Hafnarfjarðar, þar sem Óli rekur gullsmíðaverkstæði og Anna er honum nú innan handar eftir að hafa þurft að gera hlé á öðrum störfum sínum. Við komum þó að því síðar og byrjum á byrjuninni.

„Ég sá Óla í fyrsta skipti í Versló­partíi en ég var í bekk með vini Óla, þar sáumst við fyrst. Óli og vinur hans mættu í partíið og ég man að ég hugsaði að þetta væru sætir strákar þó að mér þætti Óli aðeins sætari. Á mánudeginum hringdi svo hinn vinurinn í mig og á endanum vorum við par í svona tæpt ár,“ segir Anna og hlær að upprifjuninni.

Ástarfundur á Kaffibarnum

Þó nokkrum árum síðar, eða þegar þau voru í kringum þrítugt og Anna orðin móðir, hitti hún Óla á Kaffibarnum.

„Hann var að koma af árshátíð veiðifélags síns og ástandið eftir því þegar við hittumst klukkan fimm um morguninn,“ segir hún.

En augljóslega fór vel á með þeim og þetta kvöld var grunnurinn lagður. Anna, sem sjálf lýsir sér sem fiðrildinu í sambandinu var þó á leið í mastersnám til Sevilla á Spáni og sá því ekki fyrir sér að nokkuð yrði úr sambandi við veiðimanninn af Kaffibarnum.


„Hann var að koma af árshátíð veiðifélags síns og ástandið eftir því þegar við hittumst klukkan fimm um morguninn.“


„Ég dvaldi á Spáni í eitt ár með Ölmu sem þá var þriggja ára og Óli kom í eina heimsókn til okkar,“ segir hún og Óli bætir við: „Við töluðum saman nokkrum sinnum í viku og ég var alltaf að vona að það yrði eitthvað úr þessu.“

Ári síðar flutti Anna heim og þau Óli náðu aftur saman, eftir tveggja mánaða samband flosnaði þó upp úr en stuttu eftir sambandsslitin áttaði Anna sig á að hún væri með barni.

„Það var auðvitað leiðinlegt að vera ekki saman frá degi eitt,“ segir Óli og talar um að vinirnir hafi byrjað í barneignum á svipuðum tíma og hann hafi fundið fyrir svolitlum vanmætti yfir að vera ekki í betri stöðu.

Óli fór í annað samband á þessum tíma sem entist í um þrjú ár. Það gerði Anna líka en þegar slitnaði upp úr báðum samböndum náðu þau strax saman aftur.

„Einhverjum mánuðum síðar flutti Óli svo inn til okkar barn­anna.“

„Shining“ fílingur á Ströndum

Það hafði lengi blundað í Önnu að flytja út á land en hún starfaði sem menntaskólakennari og langaði að breyta til.

„Þegar ég svo sá auglýst eftir kennara í Trékyllisvík sendi ég Óla skilaboð í vinnuna,“ útskýrir Anna.

„Þú spurðir hvort ég væri til í að fara í smá Shining-fíling með þér á Finnbogastaðaskóla á Ströndum þar sem síðasta galdrabrennan var. Ég las þetta upphátt fyrir strákana í vinnunni og man að þeir spurðu hvort hún væri ekki örugglega að grínast, ég var aftur á móti ekki viss.“

Óli áttaði sig þegar hann kom heim að ekki var um grín að ræða, Anna sótti um og fékk starfið.

Þau Óli og Anna Sigga eru óhrædd við að elta ævintýrin og hafa flutt fjölskylduna á Strandir og Vestfirði. Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Í Trékyllisvík tók Anna við fimm nemenda bekk og var Alma, dóttir hennar, einn þeirra. „Sonur okkar var þá þriggja ára svo ég sinnti honum auk þess að kenna leikfimi og smíði við skólann,“ segir Óli sem gat jafnframt sinnt gullsmíðinni.

Þau eru sammála um að lífið á Ströndum hafi átt vel við þau.

„Búðin var opin þrisvar í viku og það var það eina sem maður gat mögulega stressað sig yfir, að missa af búðinni. Svo var frystikistan og stórt búr fullt af mat og þaðan valdi maður hvað yrði eldað.“ Óli er áhugasamur veiðimaður og gat sótt bæði fisk og villibráð í matinn. „Að því leyti var þetta bara íslenski draumurinn,“ segir hann.

Tveimur dögum áður en fjölskyldan flutti á Strandir komst Anna að því að von væri á þriðja barninu.

„Það setti ákveðið strik í reikninginn enda ekki á planinu. En við ákváðum þó að halda okkar striki eftir að hafa rætt málið við skólastjórann,“ segir Anna en viðurkennir að fólki í kringum þau hafi fundist ákvörðunin um að flytja svo afskekkt í þeim aðstæðum, undarleg.

Fjölskyldan bjó í íbúð í skólahúsnæðinu og voru Óli og Anna einu starfsmennirnir utan skólastjórans og matráðs.

Mætti í vinnuna á sokkunum

„Þetta var ótrúlega kósí og ég hef aldrei áður verið í vinnu þar sem ég get mætt á sokkunum, út um einar dyr og inn um aðrar. Heimamenn eru líka elskulegir og allir vilja allt hver fyrir annan gera,“ segir Anna og þau eru sammála um að hafa ekki fundið fyrir einangrun en þau hafi þurft að venjast rokinu enda húsið staðsett við sjóinn og þau varla sofið fyrir veðurlátum fyrstu næturnar.

Anna var sett í apríl en í mars var Óli í burtu og hún ein með börnin tvö þegar hún fór að finna fyrir miklum verkjum.

„Vegurinn var lokaður og læknirinn sagðist ekki geta tekið neina áhættu og því var send sjúkraflugvél eftir mér á Gjögur. Svo um leið og ég settist inn í flugvélina duttu hríðarnar niður,“ segir Anna og hlær en barnið kom ekki fyrr en sex vikum síðar, tveimur vikum eftir settan dag, þegar það var sótt.


„Vegurinn var lokaður og læknirinn sagðist ekki geta tekið neina áhættu og því var send sjúkraflugvél eftir mér á Gjögur."


Fjölskyldan fór aftur á Strandir eftir fæðinguna þar sem þau létu skíra nýfædda dóttur sína og kláruðu skólaárið en fluttu svo aftur í bæinn. „Ég gat ekki alveg hugsað mér að vera áfram með smábarn,“ segir Anna.

Skildu í annað sinn

Fjölskyldan flutti þá í Hafnarfjörðinn þar sem þau bjuggu öll saman í eitt ár eða þar til Anna og Óli skildu í annað sinn. Óli flutti í Laugardalinn þar sem hann byggði upp veitingastaðinn Kaffi Laugalæk ásamt vini sínum og var við það að kaupa hlut í staðnum þegar hann heyrði af því að Anna fyrirhugaði að flytja á Flateyri ásamt börnunum þremur.
„Það var mikið sjokk, enda minna vesen að skreppa til Köben heldur en þangað,“ segir Óli sem var hálfpartinn á hliðinni vegna fréttanna þar til hann áttaði sig á því að hann gæti bara flutt vestur líka. Hann flutti á Ísafjörð þar sem hann opnaði gullsmíðaverkstæði og börnin gátu þá farið á milli og dvalið þannig hjá báðum foreldrum. Óli er gamall skíðamaður sem tók fjallaskíðin fram og naut sín vel fyrir vestan þar sem stutt er í fjöllin.

Ævintýraþráin hafði enn einu sinni dregið Önnu af stað og hún réði sig sem kennslustjóra við Lýðskólann á Flateyri og leigði hús í efri byggðum þorpsins þar sem hún bjó með börnunum þremur.

„Ég þekkti aðeins til á Flateyri og hafði heimsótt þorpið sem krakki. Þarna vorum við að undirbúa opnun skólans og það var ótrúlega spennandi verkefni.“ Anna segir vel hafa verið tekið á móti fjölskyldunni og að þeim hafi liðið mjög vel.

„Svo er þetta einn fallegasti staður landsins, Önundarfjörðurinn er einstakur og það er varla hægt að ímynda sér betri stað til útivistar,“ segir Óli sem ber Ísafirði einnig einstaklega vel söguna þangað sem hann er enn með sterka tengingu og rekur þar enn verslun.

Leist ekki á staðsetningu hússins

Anna leigði eins og fyrr segir hús fyrir sig og börnin í efri byggð Flateyrar og segir Óli að sér hafi ekki alveg litist á staðsetninguna.

„Þegar ég sá húsið sem stendur um tveimur metrum frá snjóflóðavarnargarðinum stóð mér ekki á sama. Bróðir minn hafði 19 ára gamall farið sem björgunarsveitarmaður í flóðið sem skall á byggðina 1995 og sú reynsla sat svo í honum að hann hætti sem björgunarsveitarmaður. Maður gat ekki annað en hugsað út í þetta en bægði þeim hugsunum svo frá sér og sagði sjálfum sér að treysta garðinum,“ útskýrir Óli.


„Þegar ég sá húsið sem stendur um tveimur metrum frá snjóflóðavarnargarðinum stóð mér ekki á sama."


Anna bendir jafnframt á að fyrri veturinn sem hún bjó fyrir vestan hafi lítið snjóað og allar snjóflóðaáhyggjur verið víðs fjarri.

„Skíðasvæðið var þá bara opið tvær helgar svo manni fannst maður hálfsvikinn,“ segir Anna og Óli bætir við að líklega hafi of margir skíðamenn lagst á bæn því síðasti vetur var einn sá snjóþyngsti í manna minnum.

Snjóaði stanslaust

En að örlagaríka deginum 14. janúar síðastliðnum. Snjó hafði kyngt niður í fleiri daga og ófært var á milli Flateyrar og Ísafjarðar. Siggi, sonur þeirra Önnu og Óla, hafði dvalist hjá pabba sínum í tíu daga þar til hann fékk far með snjótroðara yfir svo hann var nýkominn til Flateyrar þegar snjóflóðið féll á heimili þeirra.
„Þetta var rosalegasta veður sem maður getur ímyndað sér, snjóaði stanslaust og var mjög hvasst. Mér var farið að líða hálfilla enda veðrið búið að standa yfir lengi og maður sá ekkert út. Það var alltaf óvissustig enda komst enginn til að mæla snjóalög vegna veðurs, en hefði verið lýst yfir hættustigi hefði ég fært okkur neðar í byggðina.“

Hús Önnu og barnanna á Flateyri illa farið eftir flóðið sem fór í gegnum það á tveimur stöðum.
Mynd/Önundur Pálsson

Anna segist hafa verið svolítið óróleg þegar börnin voru að fara að sofa þetta kvöld.

„Dóttir okkar var nýbúin að taka upp á því að vilja sofa ber að ofan eins og pabbi hennar og bróðir og ég man að ég hugsaði að það væri kannski ekki rosalega sniðugt ef við þyrftum að hlaupa út mjög skyndilega.“

Annað sem var svolítið sérstakt að mati Önnu er að eftir að hafa gengið fram hjá herbergi Ölmu hafi hún bakkað og farið inn til hennar.

„Ég kyssti hana þá og bauð henni góða nótt sem ég geri ekkert alltaf við fimmtán ára unglinginn.“


Fylltist á nokkrum sekúndum


Eftir það gekk Anna inn í eldhús, sá að Helena vinkona hennar og skólastjóri Lýðskólans hafði hringt og reyndi að hringja til baka án árangurs.

„Ég fer svo inn í stofu og hún hringir til baka og segir mér að snjóflóð hafi fallið á höfnina, rétt í þeim töluðu orðum fellur snjóflóð á húsið mitt.“

Flóðið gekk inn í húsið sitt hvorum megin við Önnu sem stóð við gluggalausan vegg. „Þetta gerist svo ótrúlega hratt, húsið bara fyllist af snjó á nokkrum sekúndum og rúður sprungu vegna hljóðbylgjunnar,“ útskýrir Anna.


„Þetta gerist svo ótrúlega hratt, húsið bara fyllist af snjó á nokkrum sekúndum og rúður sprungu vegna hljóðbylgjunnar.“


„Ég segi ítrekað við Helenu sem enn er í símanum að það hafi fallið snjóflóð á húsið mitt en hún náði þessu hreinlega ekki. Ég sé strax að snjórinn er sirka 10 til 20 sentimetrum frá loftinu báðum megin við mig og að herbergið hennar Ölmu er fullt af snjó. Útidyrahurðin var farin og forstofan full.

Ég átta mig strax á að ég geti ekki grafið Ölmu út með höndunum svo ég klifra yfir skaflinn og sé þá að það er lítill snjór inni hjá hinum börnunum og heyri í þeim. Yngri dóttirin sat þar stjörf í rúmi sínu þangað sem snjórinn hafði náð og var í miklu sjokki.“

Anna heyrði svo síðar að Siggi, níu ára sonur þeirra, var þá þegar búinn að láta Neyðarlínuna vita.

„Hann var fyrstur til að láta vita að flóð hefði fallið á efri byggðina en allir voru þá með hugann við flóðið sem rétt áður hafði fallið á höfnina.“


Hélt fast í vonina


Anna sendi Sigga út um gluggann, á sokkunum, yfir til nágrannakonu og í sömu andrá sér hún fyrsta björgunarmanninn koma að húsinu.


„Hann hafði verið klár í að fara niður að höfn. Hver mínúta skiptir máli í svona aðstæðum og það bjargaði Ölmu alveg örugglega að björgunarsveitarmennirnir voru tilbúnir í göllunum á leið í hitt flóðið og komu því innan nokkurra mínútna,“ segir Anna og bætir við að hún fái seint fullþakkað björgunarsveitinni Sæbjörgu á Flateyri sem bjargaði lífi dóttur hennar.

Félagar í björgunarsveitinni Sæbjörgu, Flateyri, sem komu að björgun Ölmu ásamt Ölmu sjálfri og Bjarnheiði hjúkrunarfræðingi sem hlúði að henni þegar hún fannst. Hús fjölskyldunnar í bakgrunni. Mynd/Eyþór Jóvinsson

Önnu og börnunum tveimur var komið fyrir í bíl í götunni þar sem þau biðu í um hálftíma, fjörutíu mínútur.

„Ég hringdi strax í Óla og í pabba hennar Ölmu sem bjó fyrir sunnan.“

Anna hélt ró sinni allan tímann á meðan hún fékk reglulega fréttir af því að ekki hefði enn náðst að finna dóttur hennar.

„Þegar aðstæður verða svona alvarlegar kemur yfir mig ró en oft kemur sjokkið svo seinna meir. Ég var líka með svo mikla sannfæringu um að henni yrði bjargað. Það fór ýmislegt í gegnum hugann á þeim tíma sem leið en ég hélt fast í vonina.“


„Þegar aðstæður verða svona alvarlegar kemur yfir mig ró en oft kemur sjokkið svo seinna meir. Ég var líka með svo mikla sannfæringu um að henni yrði bjargað. Það fór ýmislegt í gegnum hugann á þeim tíma sem leið en ég hélt fast í vonina.“


Óli beið á Ísafirði og átti erfiðara með að halda rónni.

„Ég veit alveg hversu hratt líkurnar á að þú lifir af ofan í flóði hrapa og þetta stóð virkilega tæpt. Ég var í raun orðinn viss um að hún væri dáin.“


Fjögurra tíma sigling til Ísafjarðar


Um leið og Alma fannst fékk Anna fréttirnar en á þeim tímapunkti var þó ekkert vitað um ástand hennar. Anna segir tilfinninguna þegar hún svo fékk fréttirnar um að dóttir hennar væri á lífi hafa verið ólýsanlega.

„Þá var farið með hana til að­hlynningar í íþróttahúsinu og við sigldum svo með varðskipinu yfir til Ísafjarðar í versta sjóveðri sem ég get ímyndað mér. Ölmu voru gefin róandi lyf og komið í hana hita en ég og læknirinn lágum á gólfinu og ældum til skiptis í þá fjóra tíma sem það tók að sigla þessa stuttu leið. Við vörðum svo nóttinni á sjúkrahúsinu á Ísafirði.“


„Ég veit alveg hversu hratt líkurnar á að þú lifir af ofan í flóði hrapa og þetta stóð virkilega tæpt. Ég var í raun orðinn viss um að hún væri dáin.“


Anna fór aftur með börnin til Flateyrar þremur dögum eftir flóðið.

„Pabbi Ölmu bauð henni að koma suður til hans en við vildum vera áfram og hún klára grunnskólann.“


Anna segir rústabjörgunarsveitina hafa unnið magnað starf og nánast hver einasti litli hlutur fundist.

„Þessu var svo öllu raðað á pallettur í frystihúsinu auk þess sem konur um allt þorp voru að þvo af okkur föt og þurrka skó. En þetta eru bara hlutir, eftir svona upplifun er manni sama um þá. Við fundum ótrúlegan samhug og það var magnað að finna andrúmsloftið í þessu þorpi þar sem margir hafa misst nákomna í snjóflóði.“


Krassaði alveg


Þær mæðgur vöktu athygli fyrir yfirvegun og æðruleysi í fjölmiðlum eftir áfallið en Anna segir að afleiðingarnar hafi komið síðar í hennar tilfelli.

Í mars, þegar veður fór aftur versnandi, kom bakslag. „Við vorum flutt á mikið öruggari stað niðri á Eyrinni en ég varð óróleg og fór að hugsa um hvar flóðið gæti farið yfir garðana, hverjir væru í hættu og svo framvegis.“

Mæðgurnar Anna og Alma á Holtsströnd í Önundarfirði á fögrum júnídegi.
Mynd/Aðsend

Anna segir dótturina hafa jafnað sig fljótt, þó að vel hafi verið fylgst með líðan hennar og hún sagt:

„Mamma, ég held að þetta hafi haft mikið meiri áhrif á þig en mig.“ Hún er ótrúlega jarðbundin týpa eins og pabbi hennar. Sem kom sér vel í þessum aðstæðum.“

Viku eftir flóðið var Anna mætt til vinnu og segir allt hafa gengið ágætlega framan af.

„En eftir vonda veðrið í mars varð allt erfiðara. Ég þoldi illa álag í vinnunni og smám saman fann ég að ég var ekki að ráða við aðstæður svo ég minnkaði starfshlutfallið eftir að hafa ráðfært mig við áfallasálfræðing.

Í lok maí krassaði ég svo alveg. Ég kom heim úr vinnu einn daginn og brotnaði niður og gat ekki hætt að gráta.“


Ekki meðvitað að flýja hugsanir


Í framhaldi var tekin ákvörðun um að Anna færi í orlof, sem enn stendur yfir.

„Ég átti að vera heima og æfa mig í að gera ekki neitt, bara leggja mig, fara í göngutúr og horfa á sjónvarpið,“ segir Anna sem þurfti að endurbyggja þanið taugakerfið.

„Ég áttaði mig þá á að ég hafði í raun aldrei slakað á síðan þetta gerðist. Ég var ekki meðvitað að flýja einhverjar hugsanir en þetta var mín leið til að halda dampi.“


„Í lok maí krassaði ég svo alveg. Ég kom heim úr vinnu einn daginn og brotnaði niður og gat ekki hætt að gráta.“


Orlofið átti upphaflega að standa fram á haust en að ráði sérfræðings var það framlengt til áramóta.

„Ég er fegin að hún tók fram fyrir hendurnar á mér enda er maður sjálfur ekkert endilega bestur til að meta eigið ástand.“


Erfitt að vera áfram


Forsendur breyttust eðlilega þegar ákveðið var að Anna hyrfi ekki aftur til starfa um haustið.

„Mér fannst erfið tilhugsun að vera á Flateyri, horfa á skólann byrja og vera sjálf ekkert að gera og ákvað því að flytja í bæinn. Mér fannst líka erfitt að leggja það á alla að vera þarna annan vetur. Á pabba sem er í bænum og krakkana, sérstaklega yngstu dóttur okkar sem var mjög skelkuð eftir veturinn, mátti ekki heyra vindhviður og var alltaf úti í glugga að líta til veðurs,“ útskýrir Anna og Óli rifjar upp þegar hún dvaldi hjá honum á Ísafirði þar sem hann leigði kjallaraíbúð og hún dró upp gardínuna og sá bara snjó:

„Hún hreinlega hvítnaði í framan. Þetta hafði mest áhrif á hana.“

Systkinin Katrín, Alma og Siggi að Laugarbakka í Miðfirði í sumarfríinu liðið sumar.
Mynd/Aðsend

Náðu saman á ný


Anna segist þó strax hafa fengið samviskubit yfir að flytja aftur í bæinn enda hafði Óli elt fjölskylduna vestur og komið sér vel fyrir.


„Hann studdi mig þó í þessari ákvörðun og á endanum flutti hann líka suður. Við vorum líka aðeins farin að stinga saman nefjum seinnipart sumars,“ segir Anna og Óli bætir við að hann hafi viljað fara varlega í það enda búið að reyna á sambandið áður.

„Ég var ákveðinn í því að ef við myndum taka saman aftur yrðu línur að vera skýrar. En það var eitthvað breytt og við náðum vel saman.“

Anna Sigga er sambýlismanninum og gullsmiðnum Óla innan handar á verkstæði hans í Íshúsi Hafnarfjarðar.
Fréttablaðið/Stefán

Anna hefur undanfarna mánuði einbeitt sér að sjálfsvinnu og meðal annars sótt námskeið á vegum Virk. Eins hefur hún staðið við hlið Óla á gullsmíðaverkstæði hans í Íshúsinu í Hafnarfirði en verk hans eru fáanleg í vefversluninni olistefgoldsmith.com og er ekki annað að sjá en að parið sé einkar samstíga í lífi og leik.

Athugasemdir