Um 332 þúsund greindust smituð af COVID-19 á Indlandi í gær og 2.263 dauðsföll voru skráð af völdum veirunnar.

Það er mesti daglegi fjöldi tilfella og dauðsfalla af völdum veirunnar þar í landi síðan faraldurinn hófst. Alls hafa 16 milljónir greinst með veiruna á Indlandi og 187 þúsund látist af völdum hennar.

Heilbrigðiskerfið í landinu er að þrotum komið og fjöldi spítala annar ekki eftirspurn eftir sjúkrarýmum eða súrefnisbirgðum. Hæstiréttur Indlands hefur sagt að neyðarástand ríki í landinu.

Alls hafa 16 milljónir greinst með veiruna á Indlandi og 187 þúsund látist af völdum hennar.
Fréttablaðið/Getty

Sjúkrahús í Delí vöruðu í gær við því að súrefnisbirgðir þeirra væru senn á þrotum og biðluðu til stjórnvalda um aðstoð. Fjöldi fólks hafði þá lýst yfir að vandamenn þess þörfnuðust bráðrar aðstoðar.

Súrefnisgeymar hafa verið sendir með lestum í massavís til þeirra svæða sem verst eru stödd til að reyna að létta á ástandinu. Skorturinn er svo mikill að á sumum stöðum hefur vopnað gæslulið verið sent með til að gæta birgðanna þar sem borið hefur á þjófnaði á geymunum.

Margir hafa tekið upp á því að flýja stórborgirnar til að sækjast eftir sjúkraaðstoð í dreifbýlinu, en læknar þar segjast hvorki eiga rými né birgðir til að taka á móti fleiri smituðum.

Þá hafa líkbrennslustöðvar skipulagt fjöldabrennslur sökum gríðarlegs fjölda látinna.