Í dag og á morgun er útlit fyrir norðlæga átt á landinu, víða strekkingur eða allhvass vindur, jafnvel hvassari á stöku stað í vindstrengjum við fjöll. Þá má einnig búast við slyddu eða snjókomu á norðanverðu landinu, en þurrt syðra. Hiti verður í kringum frostmark.
Á morgun kólnar og verður þá frost að 6 stigum. Útlit fyrir él norðan- og austanlands. Sunnan heiða verður áfram þurrt, þó ský verði á himni.
Síðan eru áfram horfur á norðanátt út vikuna með frosti um allt land.
„Veturinn hefur verið snjóléttur hingað til, en í vikulokin ætti að hafa bætt vel í snjóinn norðan- og austanlands og lyftist þá væntanlega brúnin á aðdáendum vetraríþrótta á þeim slóðum," segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðanátt, víða 10 til 15 metrar á sekúndu, en sums staðar hvassara í vindstrengjum við fjöll. Bjart veður sunnan til á landinu, en él í öðrum landshlutum. Frost 0 til 7 stig.
Á föstudag og laugardag:
Allhvöss norðanátt og snjókoma eða él, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig.
Á sunnudag og mánudag:
Norðaustanátt og dálítil él norðan- og austanlands, en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Áfram frost um allt land.