Ný Þjónustugátt lögreglu fyrir þolendur kynferðisbrota opnar formlega í hádeginu í dag í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra.

Þolendur kynferðisbrota geta nú nálgast ýmsar upplýsingar um stöðu mála sinna rafrænt ásamt upplýsingum um þær bjargir sem þolendum standa til boða.

Þetta kemur fram í pistli Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á vef Vísis.

Þjónustugáttin er tilraunaverkefni til eins árs á meðan reynsla fæst og mun eingöngu sinna þolendum á svæði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrst um sinn.

Vefslóð gáttarinnar er mitt.logreglan.is og verður hún opnuð með formlegum hætti í hádeginu í dag.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Í pistli Höllu Bergþóru segir einnig að markmiðið sé að gáttin verði aðgengileg fyrir alla þolendur óháð umdæmamörkum og að unnið verði að því næsta árið.

Þjónustugáttin sé hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda um meðferð kynferðisbrota frá árinu 2018 þar sem eitt af markmiðunum er að bæta upplýsingaflæði til þolenda.

Þjónustugáttin verður opnuð með formlegum hætti á lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík á hádegi í dag.