Rauði kross Ís­lands mun á næstu dögum bæta við merkingum á fata­gáma sína til að tryggja að fólk viti að það sé hættu­legt að teygja sig inn í þá eða fara ofan í þá. Karl­maður á þrí­tugs­aldri lést við slíkan gám fyrir rúmum mánuði, þann 14. októ­ber síðast­liðinn. Maðurinn lést af slys­förum þegar hann teygði sig ofan í hann.

Bryn­hildur Bolla­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Rauða krossins, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að strax og slysið átti sér stað hafi Rauði krossinn leitað til Vinnu­eftir­litsins og beðið þau að taka gámana út. Þá segir hún að Neyt­enda­stofa ætli sér einnig að taka CE merkingar á gámunum út í kjöl­far slyssins. Hún segir að gámarnir séu notaðir víða í Evrópu og séu frá Þýska­landi.

„Við fengum öll gögn um merkingar frá seljanda gámana í Þýska­landi til að full­vissa okkur um að þeir væru vottaðir, sem þeir eru. En bara til að tryggja að þeir væru það og fá nýjustu upp­lýsingar um það. Við fáum al­mennt ekki margar til­kynningar um að fólk hafi slasað sig við gámana en svo gerðist eitt­hvað sem gæti ekki endað verr,“ segir Bryn­hildur.

Gámarnir verða á næstu dögum merktir betur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Almennt álitnir hættulausir

Hún segir að gámarnir séu al­mennt á­litnir frekar hættu­lausir við notkun en að slysið hafi orðið, eins og fyrr segir, þegar maðurinn teygði sig inn í hann.

„Við erum harmi sleginn yfir þessu og erum á allra næstu dögum að fara að merkja gámana enn betur. Að það sé hættu­legt að fara inn í hann. Það eru merkingar á þeim að það sé bannað að fara ofan í þá en á­kváðum að hafa það enn aug­ljósara í ljósi slyssins,“ segir Bryn­hildur og bætir við:

„Fyrst og fremst erum við miður okkar yfir þessu og erum að hugsa til ást­vina þessa manns og vonum að það sé hægt að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur þá ætlum við að bæta við merkingum.“

Vinnueftirlit gerði ekki athugasemdir

Í svari Vinnu­eftir­litsins við fyrir­spurn Frétta­blaðsins um út­tekt þeirra á gámunum kemur fram að skoðunin hafi verið gerð þann 21. októ­ber síðast­liðinn og hafi verið gerð sér­stak­lega með hlið­sjón af öryggi starfs­manna Rauða krossins.

„Vinnu­eftir­litið gerði hvorki at­huga­semdir við verk­lag né búnað í kringum gámana,“ segir í svari stofnunarinnar.

Þar segir enn fremur að hlut­verk þeirra sé að tryggja öryggi starfs­manna. Þau hafi ekki eftir­lit með gámunum sjálfum en að Rauði krossinn hafi óskað eftir því að þau fram­kvæmdu eftir­lits­skoðun „með til­liti til öryggis gámanna enda eru þessir gámar víða“.