Sólríkt hefur verið síðustu vikur, næturfrost og þurrt í veðri. Af þeim sökum hafa sinu- og gróðureldar geisað á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna veðursins.

Svæðið þar sem óvissustigið er í gildi nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Almenningur hefur verið hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr.

Í gær brann sina og gróður á svæði á stærð við tvo fótboltavelli í Guðmundarlundi í Kópavogi og í síðustu viku var umfangsmikill eldur í Heiðmörk sem talinn er vera sá stærsti frá upphafi.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir að næstu dagar muni ráða því hvort rask verði á plönum bænda hvað útirækt varðar.

„Fyrst og fremst höfum við auðvitað miklar áhyggjur af því hvað gróður er að taka illa við sér um allt land. Plön hafa ekki enn raskast hvað útirækt varðar en það fer að líða að því að svo verði,“ segir Gunnar um stöðu mála.

„Það er hins vegar þannig að bændur sem ætla að sá fyrir grænmeti geta ekki beðið mikið lengur eftir úrkomu. Svo er næturfrostið að gera bændum erfitt fyrir en frostið gerir hlutina erfiðari á ökrunum,“ segir hann enn fremur.

„Staðan er verst í uppsveitum Árnessýslu en þar fara 80 prósent grænmetisframleiðslu í landinu fram. Svo heyrði ég í bændum norðan heiða í dag sem segja næturfrostið hafa töluverð áhrif á störf þeirra,“ segir formaðurinn.

„Þó svo að það sé sólríkt og þurrt er lofthitinn ekki mikill og næturfrostið er töluvert.

Það var til að mynda níu gráða frost á Þingvöllum um helgina. Nú liggjum við bara á bæn og vonum að það fari að hlýna á næturnar og rigna á daginn,“ segir Gunnar