Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, Gunnar Þor­geirs­son, for­maður Bænda­sam­taka Ís­lands, og full­trúar sveitar­fé­laga í Skaga­firði hafa undir­ritað sam­komu­lag við Kristínu Lindu Jóns­dóttur, sál­fræðing, um að veita sauð­fjár­bændum sál­rænan stuðning og ráð­gjöf vegna riðu­veiki sem greinst hefur í Skaga­firði.

Þetta kemur fram í til­kynningu. Kristín Linda er klínískur sál­fræðingur og rekur eigin sál­fræði­stofu, Huglind ehf. Í verk­efninu felst að heimilis­fólki á þeim búum þar sem riðu­veiki hefur greinst stendur til boða að nýta sér sál­fræði­þjónustu Kristínar Lindu.

Ráð­gjöfin verður í boði í Skaga­firði þegar að­stæður leyfa eða í gegnum fjar­fundar­búnað. Auk þess hafa bændur fengið sent fræðslu- og leið­beiningar­efni sem hefur verið tekið saman um á­hrif af ytri á­föllum á líðan fólks og hag­nýt ráð sem hafa reynst vel þegar erfið­leikar og á­föll ganga yfir. Sjónum er sér­stak­lega beint að við­brögðum ef riðu­veiki greinist í sauð­fé.

Í fræðslu­efninu er auk þess vikið að bjarg­ráðum for­eldra vegna upp­lifunar barna og ung­menna.
Þá mun Kristín Linda sækja opinn upp­lýsinga­fund sem fyrir­hugað er að halda fljót­lega þar sem hún mun taka þátt í um­ræðum og svara spurningum.