Bændasamtök Íslands, samtök bænda á Íslandi, segja að þau muni ekki láta staðar númið í baráttu sinni gegn óheftum innflutningi á hráu kjöti. Í dag gekk dómur í Hæstarétti í áfrýjunarmáli ríkisins gegn Ferskum kjötvörum. Hæstiréttur staðfesti dóminn.

Íslenska ríkið var í héraði 2016 dæmt til að greiða fyrir fyrirtækinu bætur vegna banns við að flytja inn hrátt kjöt. Bannið stríðir gegn matvælalöggjöf ESB, sem var innleidd árið 2009.

Sjá einnig: Ólögmætt að  banna innflutning á hollensku kjöti

Ríkið lagði í málsvörn sinni áherslu á að ákvarðanir stjórnvalda hafi verið í þágu varna gegna dýrasjúkdómum. Í EES-samningnum er kveðið á um að samningsaðilar megi hefta eða banna innflutning vara til að tryggja almannaöryggi og vernd heilsu manna eða dýra. Sjúkdómastaða íslensks búpenings sé óvenjuleg í samanburði við önnur ríki – vegna aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna.

Bændasamtökin segja að dómurinn víki í engu að þessum atriðum. Það hafi heldur ekki verið gert í dómi EFTA-dómstólsins í nóvember í fyrra. Eingöngu hafi þar verið byggt á því að markmið matvælalöggjafarinnar að samræma hana á þessu sviði innan EES.

Haft er eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, að baráttu samtakanna sé hvergi lokið. „Verndun íslensku búfjárkynjanna sem menningarverðmæta og erfðaauðlindar sé mál sem varðar alla. Auk skuldbindinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni sé fjölbreytileikinn hluti af aðdráttarafli landsins fyrir ferðamenn og órjúfanlegur hluti af menningu landsbyggðarinnar.“

Samtökin vilja að stjórnvöld fari fram á það við ESB að áfram verði heimilt að beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu manna og dýra „enda standi til þess full rök sem ekki hafa verið hrakin“. „Bændasamtök Íslands munu ekki láta hér staðar numið og heita á alla málsmetandi að veita því liðsinni áfram.“