Þann 29. nóvember árið 1872 opnaði athafnamaðurinn Sigfús Eymundsson fyrstu bókaverslunina á Íslandi, síðan eru liðin 150 ár.

Sigfús nam bókband í Kaupmannahöfn, lærði ljósmyndun í Bergen og opnaði fyrstu ljósmyndastofuna í Reykjavík árið 1867. Sigfús var lengi umboðsmaður Allan-skipafélagsins sem bauð flutninga til Norður-Ameríku og má ætla að hundruð eða þúsundir Íslendinga hafi flust vestur um haf með milligöngu Sigfúsar. Það var hins vegar Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar sem átti eftir að festa nafn hans rækilega í sessi hjá þjóðinni.

Sigfús keypti húsið á horni Austurstrætis og Lækjargötu undir verslunina árið 1871 en hann ætlaði versluninni fyrst í stað lítið húsnæði á götuhæðinni, en hún dafnaði jafnt og þétt og árið 1875 lét hann byggja hæð ofan á suðurhluta hússins.

Sigfús Eymundsson
Mynd/Aðsend

Á árunum 1882–83 stækkaði hann húsið frekar og lengdi það. Sjálfur bjó Sigfús ásamt konu sinni, Sólveigu Daníelsdóttur, á efri hæðinni og rak þar ljósmyndastofu. Þannig stóð húsið nánast óbreytt til vorsins 2007 er það brann til kaldra kola í stórbruna. Húsið hefur síðan verið endurbyggt í svipaðri mynd.

Bókaverslunin setti frá upphafi mark sitt á bæjarlífið. Þangað lagði fólk leið sína til að kaupa bækur, ritföng, miða á viðburði og ýmislegt annað. Sigfús hóf bókaútgáfu árið 1886 og flutti líka inn ýmsar vörur og var til dæmis fyrstur manna til að flytja inn sjálfblekunga og ritvélar. Hann var líka fyrstur til að selja póstkort á Íslandi, en ljósmyndirnar á þau tók hann sjálfur.

Hestar fyrir utan Eymundsson í Austurstræti í Reykjavík.
Mynd/Aðsend

Nýir eigendur

Árið 1908 bárust Pétri Halldórssyni fregnir af því að heilsu Sigfúsar væri farið að hraka og hann hygðist selja verslunina. Pétur keypti bæði verslunina og bókaútgáfuna og tók við starfseminni árið 1909. Sigfús lést tveimur árum síðar.

Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar hélt áfram að blómstra undir stjórn Péturs. Eins og Sigfús rak hann bæði fyrirtækin af miklum menningar- og myndarbrag, og jók bókaútgáfuna til muna. Árið 1920 keypti Pétur steinhúsið að Austurstræti 18 og færði verslunina þangað í stærra og nýtískulegra húsnæði.

Pétur Halldórsson.
Mynd/Aðsend

Penninn stofnaður

Árið 1932 stofnaði Baldvin Pálsson Dungal Pappírs- og ritfangaverslunina Pennann, ásamt bróður sínum Halldóri. Verslunin var til húsa í Ingólfshvoli, á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Skuggi heimskreppunnar hvíldi yfir viðskiptalífinu og fáir spáðu fyrirtækinu langlífi.

Þeir bræður höfðu dvalist langdvölum erlendis og höfðu kynnst ýmsum nýjungum í verslunarrekstri. Til að mynda var Penninn lengi eina verslunin sem seldi minjagripi, en staðsetningin hentaði vel til að þjóna ferðamönnum sem komu til landsins við Steinbryggjuna gömlu. En fyrst og fremst fékkst Penninn við innflutning á pappírsvörum og ritföngum.

Árið 1937 keypti Baldvin Dungal hlut bróður síns í Pennanum og hélt áfram uppbyggingu fyrirtækisins ásamt fjölskyldu sinni.

Mikil tímamót urðu árið 1959 þegar Almenna bókafélagið (AB) keypti Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Búðin var flutt tímabundið í gamla Morgunblaðshúsið að Aðalstræti 6, því ákveðið var að rífa gamla húsið að Austurstræti 18 og byggja þar nýtt. Þann 19. nóvember 1960 var bókaverslunin aftur komin á sinn gamla reit í nýju húsi að Austurstræti 18, þar sem hún stendur enn þann dag í dag.

Ný kynslóð tekur við

​​Árið 1969 urðu kaflaskil í sögu Pennans þegar Baldvin Dungal, eigandi fyrirtækisins, lést snögglega. Sonur hans, Gunnar B. Dungal, tók þá við rekstrinum rúmlega tvítugur að aldri. Baldvin hafði byggt upp blómlegt fyrirtæki og rak á þessum tíma verslanir í Hafnarstræti, Laugavegi 84 og Laugavegi 176. Fimm árum síðar, árið 1974, opnaði Penninn verslun sína í Hallarmúla og þegar fram liðu stundir varð sú verslun flaggskip fyrirtækisins.

Baldvin Dungal.
Mynd/Aðsend

Á 9. áratug síðustu aldar, rúmum 110 árum eftir opnun Bókaverslunar Sigfúsar, tók Eymundsson að stækka allverulega. Á árunum 1986–1990 voru fjórar bókaverslanir til viðbótar þeirri gamalgrónu í Austurstrætinu opnaðar. Í Mjódd, í Kringlunni, á Eiðistorgi og á Hlemmi.

Níundi áratugurinn átti eftir að reynast mikið breytingaskeið hjá Pennanum. Árið 1982 fékk Penninn bóksöluleyfi, en slíkt leyfi er nauðsynlegt til að fá bækur í umboðssölu frá útgefendum, og opnaði bókadeild í verslun sinni í Hafnarstræti.

Sama ár hóf Penninn jafnframt innflutning á skrifstofuhúsgögnum. Með aukinni tölvunotkun þurfti Penninn að mæta þeirra þróun, svo sem með auknu framboði af nýjum ritföngum og rekstrarvöru fyrir „tölvuútskriftir“. Árið 1987 var opnuð stórverslun á þremur hæðum að Austurstræti 10, en versluninni í Hafnarstræti var lokað. Ný verslun var opnuð í Kringlunni sama ár.

Það var árið 1990 sem Penninn og Eymundsson leiddu saman hesta sína í fyrsta sinn. Verslanirnar tvær fóru undir sama þak þegar ritfanga- og gjafavörudeild Pennans var flutt í kjallara Austurstrætis 18 og fyrirtækin gerðu með sér samkomulag um sölu á bókum. Penninn átti að bjóða fjölbreytt úrval ritfanga, teikni­vara og gjafavöru ásamt landsins mesta úrvali af pennum, en Eymundsson skyldi sjá um íslenskar og erlendar bækur, tímarit og blöð.

Þetta sama ár seldi Almenna bókafélagið Eymundsson. Reksturinn hafði vægast sagt gengið brösuglega og tók prentsmiðjan Oddi verslanirnar upp í skuld. Voru Eymundsson-verslanirnar svo seldar samdægurs til Iðunnar bóka­útgáfu. Með þessum samruna var Iðunn orðin stærsti bóksali landsins. Ári seinna opnaði Eymundsson sína sjöttu verslun í Borgarkringlunni. Iðunn hélt þó áfram að reka Eymundsson með miklu tapi og árið 1992 keypti Oddi verslanirnar aftur.

Árið 1992 stofnuðu Gunnar og eiginkona hans, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Listasjóð Pennans. Sjóðnum var einkum ætlað að styrkja unga myndlistarmenn, sem voru að feta sín fyrstu spor á listabrautinni, og kaupa verk eftir þá.

Mynd/Aðsend

Penninn og Eymundsson

Þau tímamót urðu í apríl 1996 að Penninn, með Gunnar í fararbroddi, keypti verslanir Eymundsson í Austurstræti, Kringlunni og Borgarkringlunni. Hinar verslanir Eymundsson, á Eiðistorgi, Hlemmi og í Mjódd, voru áfram reknar undir öðrum nöfnum. Þetta sama ár opnaði Penninn verslun í Hafnarfirði.

Árið 1998 samþykkti borgarráð að heimila Pennanum að útbúa bókakaffi í versluninni í Austurstræti 18, en fyrirtækið hafði keypt fasteignina á vormánuðum. Þar með varð til eitt ástsælasta bókakaffi landsins, sem lifir góðu lífi enn í dag. Á næstu tveimur árum keypti Penninn bóka- og ritfangaverslun Bókvals á Akureyri, GKS trésmiðju og ritfanga- & tölvuverslunina ­Griffil. Griffill var rekinn í Skeifunni til ársins 2014 þegar verslunin gjöreyðilagðist í stórbruna.

Umsvif Pennans margfölduðust og með kaupunum á Eymundsson færði fyrirtækið sig í auknum mæli yfir í bóka- og tímaritasölu. Í árslok 2002 voru verslanir fyrirtækisins orðnar tíu talsins og starfsfólki hafði fjölgað úr 60 í 220.

Árið 2003 var samið um kaup á fjórum af Bókabúðum Máls og menningar.

Kristinn Vilbergsson og Gunnar Dungal
Mynd/Aðsend

Penninn seldur

Árið 2005 dró til tíðinda þegar Gunnar seldi fyrirtækið. Þeir Kristinn Vilbergsson og Þórður Kolbeinsson fóru fyrir fjárfestum sem keyptu Pennann.

Sama ár opnaði Penninn verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og keypti bókaverslanir á Akranesi, Ísafirði og í Keflavík.

Í kjölfar efnahagshrunsins var ljóst hvert stefndi hjá Pennanum. Eftir viðræður við eigendur félagsins tók Nýja Kaupþing yfir rekstur Pennans árið 2009. Viku síðar lýsti bankinn Pennann svo gjaldþrota, stofnaði nýtt félag, Pennann á Íslandi.

Á árunum 2014–16 voru allar verslanir fyrirtækisins sameinaðar undir vörumerki Pennans Eymundsson, en fyrst þeirra var ný verslun við Laugaveg 77 sem var opnuð sumarið 2014.

Penninn rekur nú 16 verslanir um land allt undir nafninu Penninn Eymundsson. Þá rekur félagið húsgagnaverslun, fyrirtækjaþjónustu og heildverslun, þrjár ferðamannaverslanir undir nafninu The Viking og eina undir nafninu Islandia.