Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir efni kynningarbæklings um uppbyggingu íbúða í borginni hafa verið mikilvægara en að minnka úrgang með því að afþakka fjölpóst.
Þetta kemur fram í svari borgarritara við fyrirspurn Fréttablaðsins til borgarinnar. Í fyrirspurninni sem send var 8. nóvember síðastliðinn og svar barst loks við í gær var rifjað upp að þann 10. júlí árið 2020 kynnti Reykjavíkurborg á vefsíðu sinni límmiða sem dreift var til fólks með áletrun um að fjölpóstur væri afþakkaður.
„Þannig getur fólk stuðlað að minni notkun auðlinda, vegna pappírs, prentunar og dreifingar og vegna söfnunar og endurvinnslu á pappírnum,“ sagði í kynningu. „Reykjavíkurborg vonar að íbúar geti nýtt sér miðana og í sameiningu sé hægt að minnka þann úrgang sem fellur til í borginni,“ sagði þar einnig.
Þrátt fyrir þennan yfirlýsta vilja borgarinnar til að sporna gegn fjölpósti lét borgin í haust prenta og dreifa á heimili borgarbúa 64 síðna bæklingi um íbúðauppbyggingu.
„Hvernig fer dreifing fjölpósts frá Reykjavíkurborg um uppbyggingu íbúða í borginni saman við þá viðleitni gegn fjölpósti sem kynnt var í júlí 2020?“ spurði Fréttablaðið af þessu tilefni.
Í svari borgarritara er rakið að kynningarfundur um uppbyggingu íbúða í Reykjavík sé haldinn á hverju hausti. Þar sé staða mála kynnt; hvar sé verið að byggja nýjar íbúðir og hver eru framtíðarbyggingarsvæðin.
„Mikilvægi húsnæðismála og hvernig við byggjum lífsgæðaborg og upplýsingagjöf því tengd trompar flest annað. Að mati borgarinnar er mikilvægt að borgarbúar séu vel upplýstir um stöðu mála hverju sinni,“ segir borgarritari sem kveður metþátttöku hafa verið á kynningarfundi um þetta efni þann 4. nóvember síðastliðinn. „Þá er rétt að geta þess að ritinu var ekki dreift til þeirra sem afþakka fjölpóst,“ tekur hann fram.
Gerð og dreifing bæklingsins kostaði samkvæmt svari borgarritara ríflega 13,3 milljónir króna. Þar af hafi vinna fyrirtækisins Athygli við öflun efnis og mynda og textaskrif ásamt öðru kostað 4.950.000 krónur, hönnunarvinna og umbrot Ritforms 1.605.000 krónur, prentun Ísafoldar 4.403.900 krónur og dreifing Póstdreifingar kostað 2.363.340 krónur.
