Hildur Rós Guðbjargardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, telur meirihlutann ekki taka mengunarslysið í Costco nógu alvarlega.
Telur Hildur bæinn hafa brugðist tilkynningarskyldu sinni til íbúa og bæjarfulltrúa. Þá hafi Umhverfisstofnun ekki strax verið látin vita.
„Íbúar voru ekki látnir vita hver upptökin væru. Ekki heldur við í minnihlutanum sem sitjum í nefndum,“ segir Hildur sem lagði fram tillögu um rannsókn á tildrögum og viðbrögðum við slysinu í bæjarstjórn í vikunni.
Það var fyrir jól sem íbúar í norðurbæ og vesturbæ Hafnarfjarðar fundu stæka ólykt sem minnti á olíulykt. Sumir fundu fyrir ógleði og höfuðverk vegna lyktarinnar. „Fólk var við það að hætta við fjölskylduboð því þetta gerðist yfir hátíðirnar,“ segir Hildur.
Þremur vikum seinna kom í ljós að lyktin kom frá bensínstöð Costco þar sem búnaður brast. Í minnisblaði veitustjóra kemur fram að Costco hafi vitað af biluðum viðvörunarbúnaði áður en það gerðist.
„Costco vissi af biluðum mengunarvarnabúnaði áður en olían lak út í kerfið. Af hverju er ekki tilkynningarskylda hjá svona fyrirtæki?“ segir Hildur. „Mín ósk er að það verði farið í rannsókn á þessu slysi og ábyrgð sett á rétta staði.“
Aðspurð um Costco segir Hildur ólíklegt að nokkuð verði aðhafst gegn því fyrirtæki. Engin sektarákvæði séu í lögum og fyrirtækið hafi ekki misst starfsleyfi sitt. Einnig segist hún sjálf ekki kalla eftir því. Hún vilji hins vegar fá rannsókn á slysinu til þess að hægt verði að bæta verkferla og gera betur í framtíðinni ef svona gerist á nýjan leik