Bæjarstjórn Ölfuss viðurkennir að hafa flýtt sér um of í samningaviðræðum við Hjallastefnuna um rekstur eina leikskóla bæjarins og biðst formlega afsökunar á ferlinu. Bæjarstjórnin ítrekar að vilji hennar til samninga við Hjallastefnuna sé áfram einbeittur.

„Við sjáum að mistök voru gerð í ferlinu. Óskir um að málin yrðu meira rædd og útskýrð eru eindregnar og mikilvægt að bregðast við. Aukin tíma þarf að gefa í undirbúning og því miður lengir það óvissutíma starfsmanna. Beðist er afsökunar á því sem betur hefði mátt fara,“ segir í opnu bréfi bæjarstjórnar til starfsfólks Bergheima.

Starfsfólk leikskólans Bergheima bendir á tvískinnung bæjarstjórnar sem sagði á fundi að kosið hefði verið lýðræðislega um að hefja viðræður við Hjallastefnuna. En það hafi verið gert án samráðs við foreldraráð, fræðslunefnd, starfsfólk og íbúa sveitafélagsins.

Segja uppsagnarbréfin ólögmæt

Bæjarstjórnin segir þessar fyrirhugaðar breytingar hafa verið gerðar af vilja til að bæta þjónustu innan bæjarins og að gera leikskólann enn betri. Fréttablaðið greindi frá því í gær að starfsfólk og foreldrar hafi kvartað undan samráðsleysi bæjaryfirvalda og sagt margt óljóst í tengslum við breytinguna. Þá hafi reynst erfitt að fá skýr svör.

Fréttablaðið ræddi við starfsfólk leikskólans Bergheima sem greindi frá því að bærinn hafi reynt að afhenda þeim uppsagnarbréf þann 30. júní án árangurs en stéttarfélag þeirra, FOSS, hefur ráðlagt þeim að taka ekki við þeim. Það væru að þeirra mati ólögleg uppsagnarbréf.

FOSS er aðildarfélag BSRB og segir framkvæmdastjórinn, Magnús Már Guðmundsson, að aðildaskiptalög gildi þegar sveitarfélög fá einkaaðila að borðinu til að sinna þjónustu. Samkvæmt lögum um aðildaskipti ber einkaaðila að tryggja starfsmönnum störf á óbreyttum eða betri kjörum.

Andvökunætur vegna óvissunnar

Mikil óánægja ríkir meðal starfsfólk að ganga í óvissu inn í sumarfrí. Segjast sumir hafa upplifað andvökunætur í kjölfar ákvörðunar sveitarstjórnar. Starfsfólki var ráðlagt að taka með sér heim allar persónulegar eigur, tæma allar skúffur og taka allt dót með sér heim.

Bæjarstjórn er gagnrýnd fyrir að flýta sér óþarflega mikið í ferlinu í stað þess að hlusta á áhyggjuraddir foreldra og starfsfólks og spyrja þau hvort þau vildu Hjallastefnuna.

Ánægjukönnun sýni fram á að rúmlega 90 prósent foreldra séu ánægðir með leikskólann eins og hann er.

Bæjarstjórnin segir seinustu viku hafa verið lærdómsríka. Þau hafi í upphafi viljað ljúka málinu eins hratt og mögulegt væri til að hafa tíma óvissu sem allra stystan.

„Von okkar stóð til þess að þá þegar yrði búið að ganga frá nýjum ráðningarsamningum sem tryggðu öllum starfsmönnum sem það vildu áframhaldandi starf við leikskólann á nýjum og betri kjörum. Hefur þar til að mynda verið rætt um launahækkun og styttingu vinnuvikunnar. Takmarkið var að ljúka þeim þætti áður en sumarorlof hæfist. Nú liggur fyrir að það næst ekki,“ segir í bréfi bæjarstjórnar.

Bæjarstjórnin sendi frá eftirfarandi yfirlýsingu eftir fundi og samráð við Hjallastefnuna:

  • Vilji bæjarstjórnar til samninga við Hjallastefnuna er áfram einbeittur.
  • Öllum starfsmönnum hefur annaðhvort verið boðið starf við leikskólann eða verður boðið það.
  • Innan tveggja vikna verður settur á laggirnar stýrihópur þar sem í sitja amk. tveir starfsmenn Bergheima, tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar fræðsluráðs ásamt fulltrúum Hjallastefnunnar og stjórnsýslu sveitarfélagsins.
  • Stýrihópnum verður falið að vinna að innleiðingu á ákvörðun bæjarstjórnar á þeim forsendum sem bestar þykja fyrir börn á leikskólanum Bergheimum. Er þar bæði horft til tímasetninga sem og hraða innleiðingar og eðli hennar.
  • Stýrihópnum verður falið að haga störfum sínum þannig að eigi síðar en um áramót verði Hjallastefnan alfarið tekin við rekstri leikskólans Bergheima. Sé það æskilegt að mati stýrihópsins að vinna málið hraðar er þeim það heimilt.
  • Þegar leikskóli hefur aftur störf má búast við einhverjum breytingum. Hverjar þær verða og hversu miklar er að stóru leyti undir stýrihópnum komið, þar sem starfsmenn eiga sína fulltrúa. Það er því að nokkru leyti undir starfsmönnum sjálfum komið hversu hratt þetta verður unnið.
  • Allir starfsmenn, hefja aftur störf að loknu sumarleyfi sem starfsmenn Sveitarfélagsins Ölfuss. Búast má við að þannig verði það hluta af innleiðingaferlinu.