„Það er ekki rétt að langflestir á miðbæjarsvæðinu séu á móti þessu og það er ekki rétt að það hafi ekki verið hlustað á íbúa,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, um fyrirhugaða uppbyggingu í miðbænum.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á föstudag samþykkti bæjarráð Kópavogs samkomulag við félagið Árkór um skilmála vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Fannborgarreit í miðbæjarkjarnanum. Haft var eftir Pétri H. Sigurðssyni, bæjarfulltrúi Samfylkingar, að verið væri „að skipuleggja miðbæ í beinni andstöðu við langflesta íbúa miðbæjarins“.

Ármann bæjarstjóri segir lýsingar Péturs ekki gefa rétt mynd af ferlinu. Tvær tillögur hafi verið kynntar og mjög mikill munur sé á milli þeirra. Byggingar hafi verið lækkaðar, hæðir dregnar inn og húsin brotin upp og stölluð.

„Hæsta byggingin er örlítið hærri en hæsta byggingin sem fyrir er. Skuggavarpið er allt annað og betra eftir að við breyttum. Það er búið að halda fjölda funda með fulltrúum húsfélaganna,“ segir Ármann. „Það eru fjölmargir íbúar og atvinnurekendur á svæðinu sem hafa sagt að þeir séu ekki í þessum óánægjuhópi heldur séu mjög ánægðir með að það sé verið að fara að klára miðbæinn.“

Kolbeinn Reginsson, einn forvígismanna félagsins Vina Kópavogs sem stofnað verður formlega á fimmtudaginn, segir félaginu ætlað að fá í gang umræðu um skipulagsmálin í bænum.

„Þessi áform í miðbænum eru náttúrlega alveg út úr kortinu. Samt virðast allir bæjarfulltrúar ganga bara í humátt á eftir foringja sínum, honum Ármanni, sem er með þetta algerlega í sinni kjöltu,“ segir Kolbeinn sem kveður engan hafa beðið um þessa tegund af uppbyggingu.

„Það eru allir með í að vilja byggja upp í Hamraborginni því það er nefnilega löngu kominn tími til. En þá getum við ekki bara gefið lausan tauminn einhverjum verktaka sem hefur hagsmuni heildarinnar ekkert í fyrirrúmi heldur eingöngu sína hagsmuni,“ segir Kolbeinn sem hafnar því að íbúar hafi verið með í ráðum. Það hafi verið veikir tilburðir á Covid-tímum. „Við fengum einn fund í streymi og hann var bara í aðra áttina og ekki hægt að koma með spurningar.“

„Þessi áform í miðbænum eru náttúrlega alveg út úr kortinu.“

Ármann segir að alltaf sé hægt að segja að samráðið hefði átt að vera öðruvísi. „Það breytir því ekki að það eru lagðar fram tvær vinnslutillögur, sem ég held að sé einsdæmi í skipulagsvinnu, þar sem í síðari tillögunni er búið að taka heilmikið tillit til óánægju og athugasemda. Eftir það er unnið deiliskipulag sem tekur líka tillit til sjónarmiða og athugasemda íbúa,“ segir hann.

Um verði að ræða fjölbreyttar tegundir íbúða við eina af þremur afkastamestu miðstöðvum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það auðveldi mjög bíllausan lífsstíl fyrir þá sem það kjósa.

Ármann hafnar því að skipulag reitsins hefði orðið betra ef bæjaryfirvöld hefðu ekki selt eignirnar þar frá sér og skipulagt svæði sjálf. „Það þarf alltaf að fara í gegn um skipulagsráð og til samþykktar í bæjarstjórn og öðruvísi fer ekkert skipulag í gegn,“ segir bæjarstjórinn og minnir á að málið sé enn í ferli.