„Heilt á litið var nú ekki mikið tjón á verð­mætum hlutum eða fast­eignum, þetta voru aðal­lega smærri hús­munir, styttur, myndir og eitt­hvað slíkt sem féll um koll og brotnaði. Að­eins hefur borið á ein­staka sprungum á húsum, en í heildina litið miðað við stærð skjálftans vil ég meina að þetta hafi sloppið al­mennt bæri­lega,“ segir Fannar Jónas­son, bæjar­stjóri Grinda­víkur­bæjar, um eftir­köst stóra jarð­skjálftans sem skók Reykja­nesið rétt fyrir klukkan sex í gær­kvöldi.

Í kjöl­far skjálftans sprakk vatns­æð í lögn frá Svarts­engi sem varð þess valdandi að kalt vatn fór af öllu bæjar­fé­laginu.

„Þetta er eitt af því sem er mjög ó­þægi­legt þegar vatn fer af byggðinni, en þetta er í fyrsta skipti sem það gerist hjá okkur. Það var strax gengið í að finna hvar lekinn væri og gera við bilunina, en það tók svo­lítinn tíma fram á nóttina. Vatnið kom svo á aftur um morguninn, þannig að lögnin er í lagi eins og er,“ segir Fannar.

Stendur ekki til að loka svæðinu

Al­manna­varnir, á­samt ríkis­lög­reglu­stjóra og lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum, funduðu nú í há­deginu vegna stöðunnar á svæðinu. Fannar segir að enn sem komið er standi ekki til að loka svæðinu fyrir gestum og gangandi.

„Byggt á um­sögnum og niður­stöðum vísinda­manna sem voru á fundinum var það metið sem svo að ekki væri talin nein á­stæða til þess að loka gamla gossvæðinu við Geldingadali eða stýra um­ferð á þessu stigi,“ segir Fannar, og bætir við að það verði þó metið eftir at­vikum.

„Það er svo­lítið erfitt inn­grip því það eru margar leiðir inn á svæðið og ekki auð­velt að loka því. En ef þess verður þörf verður það gert.“

Segir jarðskjálftahrinuna „von­brigði“


Fannar segir tilhugsunina um hugsan­legt gos ekki þægi­lega. „Það eru auð­vitað von­brigði að það skuli vera að taka sig upp jarð­skjálfta­hrina, eins öflug og raun ber vitni, og við vitum að ef kvikan er að leita sér að leiðum upp getur það hugsan­lega leitt til þess að það muni gjósa,“ segir Fannar.

Hann hvetur íbúa til að halda ró sinni og fylgjast vel með, bæði á heima­síðu sveitar­fé­lagsins sem og í fjöl­miðlum, ef staðan skyldi breytast.

„Það er sólar­hrings­vakt á svæðinu í kringum okkur. Við treystum bara á vísinda­menn að vakta þetta vel og ræki­lega, og grípi svo til að­gerða á grund­velli við­bragðs­á­ætlana eftir því sem þörf er talin á,“ segir Fannar.