Á annað hundrað konur úr Vestmannaeyjum hafa verið boðaðar í brjóstamyndatöku eða skimun í Reykjavík, meðal annars Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri. Hún stingur niður penna á Facebook af þessu tilefni og og minnir á að þessi þjónusta hafi verið í boði í Vestmannaeyjum með reglulegu millibili þegar Krabbameinsfélagið sinnti verkefninu.

„Ferðalagið, vinnutapið og kostnaðurinn sem hlýst af þessu gerir þetta fyrirkomulag algjörlega óskiljanlegt. Að ég tali nú ekki um kolefnissporið,“ segir hún. Af þessu tilefni minnir hún á staðsetningu sjúkraþyrlu sem Íris vill hafa á Suðurlandi.

„Ég kalla eftir því að þeir sem valdið hafa fari nú að hugsa hlutina upp á nýtt og vinni í því að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í stað þessa að breikka bilið enn frekar.“