„Mér finnst sérstakt að ég sé að heyra þetta fyrst í fréttum, ég veit ekki til þess að neinn hafi haft samband við mig eða önnur bæjaryfirvöld,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, um fregnir af minnisblaði um hættumat vegna skriðufalla sem Fréttablaðið sagði frá í gær.

„Ég heyrði þetta líka í útvarpinu í bílnum á leið í vinnuna og hugsaði með mér: Hvaða staðir skyldu þetta vera? en datt ekki í hug Bolungarvík,“ segir Jón Páll.Bolungarvík er einn ellefu þéttbýlisstaða sem skoða þarf með tilliti til skriðuhættu, eins og fram kemur í minnisblaði vísindamanna til umhverfisráðuneytisins.

Eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995 urðu straumhvörf í snjóflóðamálum á Íslandi. Ofanflóðasjóður var efldur og þróuð ný aðferðafræði við hættumat, byggðar upp varnir og vöktun efld. Mest áhersla hefur verið lögð á varnir og vöktun snjóflóða. Ofanflóð eru hins vegar samheiti yfir snjóflóð og skriðuföll og í minnisblaði vísindamannanna segir að nú sé nauðsynlegt að gera svipað átak í skriðumálum á Íslandi og gert var í snjóflóðamálum eftir 1995.

„Þetta er alveg nýr veruleiki sem þarf að rannsaka,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði.

„Auðvitað erum við með ofanflóðavarnir hér fyrir ofan bæinn sem taka í einhverjum tilfellum líka við grjóthruni. En þetta er eitthvað alveg nýtt. Það átti til dæmis enginn von á skriðuföllum í Kinnarfjöllum á dögunum,“ segir Birgir.

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, tekur í sama streng. „Mér líst eðlilega ekki nógu vel á þá þróun sem merkja má í skriðuföllum undanfarin misseri,“ segir Elías.

„Einnig er það ákveðið áhyggjuefni að kerfið sem á að takast á við þennan málaflokk virðist tæplega vera í stakk búið til að gera það með ásættanlegum hraða og krafti. Þar ræður að einhverju leyti sú staðreynd að á undanförnum árum hefur einungis hluti þess markaða tekju­stofns sem ætlað er að standa undir ofanflóðavörnum skilað sér.“