Patricia Arce, bæjarstjóri Vinto, smábæjar í Mið-Bólivíu nálægt borginni Cochabamba, var dregin berfætt út á götu þar sem mótmælendur helltu yfir hana rauðri málningu og klipptu af henni hárið. Ráðhúsið var einnig brennt til grunna í átökunum.

Í sama bæ lést tvítugur háskólastúdent í átökum andræðra fylkinga. Mótmælendur sögðu Arce bera ábyrgð á dauða unga mannsins og hrópuðu: „Morðingi! Morðingi!“ meðan Arce var niðurlægð opinberlega. Fjórum tímum síðar var henni sleppt og fylgdi lögreglan henni upp á slysadeild.

Mikil ólga hefur verið í Bólivíu síðan Evo Morales var lýstur sigurvegari forsetakosninga sem fram fóru 20. október. Niðurstöður kosninganna eru umdeildar og hafa þrír látið lífið í átökunum.

Mótmælendur hafa lagt vegatálma víða og er Arce sögð hafa safnað saman stuðningsmönnum forsetans til að brjótast í gegnum vegatálmana og hafi þá ungi maðurinn látið lífið í þeim átökum.