Aðalheiður L. Borgþórsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, var að skrá sig út úr bænum þegar Fréttablaðið náði tali af henni seinni partinn í dag.

„Ég horfði á skriðuna falla, á þetta svæði. Ég var stödd í Ferjuhúsinu þar sem við vorum með aðstöðu fyrir starfsmenn og annað. Þetta féll á þessa byggð. Synir mínir og eiginmaður voru inni í húsi sem við héldum fyrst að hefði orðið fyrir, þannig þetta var alveg rosalegt,“ segir Aðalheiður.

En allt í lagi með þá?

„Jú, þeir sluppu. Það sluppu allir. Það var fólk í fjórum húsum sem lenti í skriðunni í raun án þess að eyðileggjast. Það var skrítið. Öll húsin í kringum fóru en ekki þessi hús sem fólkið var inni í,“ segir Aðalheiður.

Safna öllum saman

Hún sagði að það væri búið að safna fólki fyrir í félagsheimilinu í Herðubreið og það væru allir á leið út úr bænum. Ríkislögreglustjóri ákvað fyrr í dag að rýma bæinn eftir að fleiri aurskriður féllu. Neyðarstig var sett á í kjölfarið.

„Sem betur fer er fært yfir Fjarðarheiði, þannig við komumst yfir,“ segir Aðalheiður, en það er búið að bjóða öllum gistingu og að borða í Egilsstaðaskóla.

Hún vissi ekki hvort fólk ætlaði að gista þar eða hvort fólki hafði verið boðin gisting annars staðar.

„Við verðum bara að forða okkur, en svo vitum við ekkert hvað verður,“ segir hún að lokum. 

Fréttin hefur verið leiðrétt. Aðalheiður er fyrrverandi bæjarstjóri og núverandi atvinnu- og menningarmálastjóri, ekki núverandi bæjarstjóri. Leiðrétt klukkan 18:19.

Íbúum var stefnt í félagsheimilið.
Fréttablaðið/Gunnar