Aukinn launakostnaður Ísafjarðarbæjar vegna bæjarstjóraskipta í upphafi árs nemur 14 milljónum króna.

Þetta kemur fram í viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020 sem samþykktur var á bæjarráðsfundi í dag. Vestfirski miðilinn Bæjarins besta greindi fyrst frá málinu.

Guðmundur Gunnarsson lét skyndilega af störfum sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í janúar síðastliðnum eftir að hafa verið ráðinn í embættið haustið 2018.

Í tilkynningu frá bæjarstjórn um starfslokin kom fram að ástæða þeirra væri „ólík sýn á verk­efni á vett­vangi sveitar­fé­lagsins.“

Meiri­hluti bæj­ar­stjórn­ar réð síðan Birgi Gunn­ars­son í starf bæj­ar­stjóra í febrúar.

Fréttablaðið greindi frá því í janúar að uppsögnin hafi átt sér töluverðan aðdraganda og að ósætti hafi verið á milli Guðmundar og Daníels Jakobs­sonar, odd­vita Sjálf­stæðis­flokksins og fyrr­verandi bæjar­stjóra.

Nokkrum vikum eftir starfslokin gaf Guðmundur út að hann hygðist flytja frá Ísafirði ásamt fjölskyldu sinni. Þá sagðist hann ekki lengur telja sig velkominn í samfélaginu og sakaði sitjandi bæjarstjórn um fantabrögð og rógburð.