Þröstur Jónsson, fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings, sakar meirihlutann um valdníðslu og segir álit innviðaráðuneytisins um vanhæfi hans loðið. Ekki sé hægt að una við þetta.
„Það er alveg klárt að þetta mál verður tekið áfram. Þetta er fordæmisgefandi mál,“ segir Þröstur. Í samráði við lögfræðing sinn muni hann þó ekki gefa út neinar yfirlýsingar í fjölmiðlum hvað varðar stefnu til dómstóla fyrr en sú ákvörðun liggur fyrir. Þá verður send út fréttatilkynning.
Síðasta haust taldi bæði byggðarráð og sveitarstjórn Múlaþings Þröst vanhæfan til þess að fjalla um leiðarval Fjarðarheiðaganga. Þröstur barðist fyrir norðurleið en suðurleið varð fyrir valinu. Var Þröstur talinn hafa hagsmuna að gæta í málinu þar sem bróðir hans væri eigandi að tveimur jörðum sem suðurleiðin liggi um.
Í áliti innviðaráðuneytisins, dagsettu 16. janúar, eru ekki gerðar athugasemdir við þessa ákvörðun sveitarstjórnar. Þröstur segir hins vegar að orðalagið í 13 blaðsíðna álitinu sé haft eins loðið og hægt sé og enginn eiginlegur úrskurður kveðinn upp í því. Málið sé fordæmisgefandi fyrir sveitarstjórnir og skipti fámenn sveitarfélög sérstaklega miklu máli þar sem vanhæfisreglur beri að túlka þröngt. „Allt þetta mál byggir á valdníðslu meirihlutans því þeim hugnast ekki þau sjónarmið sem ég stend fyrir og var m.a. kosinn út á í síðustu sveitarstjórnarkosningum í leiðarvalinu,“ lét Þröstur bóka í byggðarráði.
Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, segir málinu lokið af hálfu ráðuneytisins. Það sé undir Þresti komið hvort málið fari lengra. „Hann fékk ekki að fjalla um málið þannig að málið er ekkert í hættu,“ segir Jónína. „Í ljósi þess að ráðuneytið er búið að staðfesta okkar mat mun hann ekki fá að fjalla um þetta mál.“