Hannes Steindórsson, bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs, var handtekinn í Gautaborg í Svíþjóð í júlí eftir slagsmál og drykkju á veitingastað.

Hann greinir sjálfur frá þessu á Facebook síðu sinni. Hannes var staddur í Gautaborg þar sem knattspyrnumót fyrir börn fór fram.

„Rétt skal vera rétt, undirritaður sat einn inná veitingastað í svíþjóð[sic] að svara tölvupóstum og símtölum, á næsta borði setjast tveir herramenn og eru að drekka. Á einhvern óskiljanlegan hátt þigg ég boð um að drekka með þeim, það endar ekki betur en svo að ég lendi í áflogum við þessa menn og við erum beðnir um að yfirgefa veitingastaðinn, stuttu seinna kemur lögreglan og fylgir okkur út af staðnum, Fjörtíu og fjögurra ára þriggja barna faðir gisti fangageymslu þá nótt,“ skrifar Hannes.

Bæjarfulltrúinn þurfti að greiða sekt til ríkisins og til mannanna sem hann lenti í áflogum við.

„Það var ekki hátt á mér risið, skömmin ólýsanleg og líðanin eftir því. Ég fer beint í faðm fjölskyldu minnar og í raun trúi ekki að ég hafi lagt þetta á þau.“

Bæjarfulltrúinn segist hafa flogið til Íslands daginn eftir og sótt fundi hjá 12 spora samtökum. Þá segist hann hafa axlað ábyrgð á gjörðum sínum en ekki kemur fram hvort fulltrúinn hafi íhugað stöðu sína innan bæjarstjórnarinnar.

Hér fyrir neðan má lesa færslu Hannesar í heild sinni.

Þegar Fréttablaðið heyrði í bæjarstjóra fyrr í vikunni sagðist Ásdís Kristjánsdóttir ekki hafa vitneskju um málið. Fréttablaðið ræddi við bæjarstjórann aftur í dag um viðbrögð við atvikinu sem óskaði eftir skriflegri fyrirspurn.