„Ég vil að við séum vel upplýst og meðvituð um hversu nálægt þetta er okkur öllum í raun og veru," segir Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar í Garðabæ, sem greindi frá því á samfélagsmiðlum að hún hefði greinst með COVID-19 sjúkdóminn.

Sara Dögg sat bæjarstjórnarfund í Garðabæ í gær en segir að ítrustu leiðbeiningum hafi verið fylgt. „Bæjarstjórn og bæjarráð hafa fengið það staðfest að þurfa ekki í sóttkví þar sem farið var eftir öllum fyrirmælum um fjarlægð og annað í hvívetna," segir Sara Dögg.

Hún fékk staðfestingu á smitinu eftir að hafa pantað sér tíma í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Ég hafði ákveðið að taka þátt í fyrirmyndarframtaki Kára Stefáns og skráði mig í próf til að taka þátt í að stækka þýðið," segir Sara Dögg.

Hún segist hafa haft kvefskít í einhverjar tvær vikur en hafi ekki mælst með hita né verið veik að öðru leyti. Jákvæð niðurstaða prófsins hafi því komið henni í opna skjöldu. „Mér brá nokkuð og satt best að segja er þetta furðuleg staða að vera í," segir Sara Dögg.

Hún segist vera frísk en sé með smá hnerra. „Förum varlega. Kvefpest getur reynst vera COVID-19," segir Sara Dögg.