Um 150 milljónir Bandaríkjamanna hafa nú verið bólusettar að fullu gegn Covid-19, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Á sunnudaginn höfðu um 177 milljónir fengið að minnsta kosti eina sprautu, sem nemur um 53,3 prósentum landsmanna. Daglegum smitum hefur fækkað markvisst í landinu frá því í apríl og eru þau nú með því lægsta sem hefur mælst frá byrjun faraldursins.

Samkvæmt skýrslu sem Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) gaf út á mánudaginn er hins vegar talsvert misræmi í bólusetningatíðni eftir aldurshópum. Þann 22. maí höfðu 57 prósent fullorðinna Bandaríkjamanna hlotið að minnsta kosti eina sprautu gegn Covid en þar af var tíðnin langhæst í elstu aldurshópunum. Áttatíu prósent þeirra sem eldri voru en 65 ára höfðu látið bólusetja sig en aðeins 38,3 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára.

Í annarri rannsókn CDC kom fram að tæpur fjórðungur fólks í yngsta aldurshópnum sagðist líklega ekki eða alls ekki ætla að láta bólusetja sig. Af þeim sögðust 56,5 prósent ekki treysta bóluefnunum og 36,4 prósent sögðust ekki telja þau nauðsynleg.

Þrátt fyrir að smitum í Bandaríkjunum hafi farið fækkandi samhliða bólusetningarherferðinni hefur bólusetningum verið að fækka dag frá degi. Hverfandi líkur eru því á því að Joe Biden nái markmiði sínu um að allir fullorðnir Bandaríkjamenn verði sprautaðir að minnsta kosti einu sinni fyrir þjóðhátíðardaginn 4. júlí.