Ís­lenska fyrir­tækið Controlant, sem sér um að vakta sendingar á bólu­efni Pfizer um heim allan, hefur beðið lyfja­fram­leiðandann um að stækka bólu­efna­skammta sína til Ís­lands á næstu vikum. Þetta stað­festir for­stjóri Controlant, Gísli Herjólfs­son, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Fyrsti skammturinn frá Pfizer barst hingað til lands í morgun og er nú gert ráð fyrir um þrjú til fjögur þúsund skömmtum til landsins í hverri viku út mars­mánuð. Á fyrstu þremur mánuðum ársins á því að vera hægt að bólusetja 25 þúsund Íslendinga. Vonir standa þá til að Lyfja­stofnun Evrópu sam­þykki bólu­efni fleiri fyrir­tækja á næstu dögum og vikum og að hægt verði að fá þau til landsins strax í kjöl­farið.

Sótt­varna­læknir og heil­brigðis­ráð­herra sögðu við Frétta­blaðið í morgun að fjöldi þeirra sem væru bólu­settir á Ís­landi og til­slakanir á sótt­varna­tak­mörkunum héldust að miklu leyti í hendur. Því er ljóst að til mikils er að vinna með því að fá sem flesta skammta til landsins sem fyrst.

Ís­lenska fyrir­tækið Controlant hefur ein­mitt beðið Pfizer um stærri skammta til landsins en bæði Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, og Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hafa einnig sett sig í sam­band við Pfizer og reynt að fá lyfja­fram­leiðandann til að senda hingað til lands nógu marga skammta til að bólu­setja alla þjóðina á einu bretti.

Bein tengsl við Pfizer

Ljóst er að Controlant hefur nokkuð greiðan að­gang að háttsettum ein­stak­lingum innan Pfizer. Lyfja­fram­leiðandinn gerði samning við Controlant í nóvember síðast­liðnum um að fylgjast með öllu ferli sendinga bóluefnisins um heim allan og sjá til þess að allt gangi rétt fyrir sig. „Það fer í gegnum okkur þegar menn vilja vita hvert á­standið er á vörunni, hvort hún sé í lagi og hvar hún er,“ segir for­stjóri Controlant við Frétta­blaðið. „Við erum að vakta alls konar fyrir Pfizer; að hita­stigið á boxunum sé rétt og hvort það sé nokkuð verið að opna þau þegar það á ekki að vera að opna þau. Við erum mið­punkturinn í flutningunum þegar kemur að upp­lýsinga­gjöf og vöktum sendingar og bregðumst við öllum ó­væntum að­stæðum sem geta komið upp.“

Hann segir að fyrir­tækið hafi á­kveðið að prófa að biðja Pfizer um meira af bólu­efni til Ís­lands. „Já, það hefur nú svo sem ekki verið mikil vinna í því hjá okkur, við bara spurðum þá. Við fórum í hátt­settasta fólkið sem við höfum bein tengsl við í fyrir­tækinu og spurðum bara hvort það væri eitt­hvað hægt að stækka skammtana hingað í fyrstu sendingunum,“ segir Gísli. Beiðninni hafi verið komið á­fram en hann hafi ekki heyrt neitt meira frá Pfizer.

Gísli er ekki endilega bjartsýnn á að Pfizer verði við beiðninni. Hann segir öll ríki heims keppast við að fá fleiri skammta.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég á­kvað bara að láta slag standa, til vonar og vara,“ segir hann en er ekki endi­lega mjög bjart­sýnn á að Pfizer verði við beiðninni. „Það er náttúru­lega þannig að það er hvert einasta land að reyna að komast á undan í röðinni með alls konar hug­myndir sem verið er að bjóða Pfizer. Svo vill Kári koma þarna með ein­hverja rann­sókn. Þú veist, það eru allir að gera þetta, allir með ein­hverja hug­mynd sem á að selja Pfizer.“

Að­spurður segist hann ekki viss um að um­rædd rann­sókn Kára eða sótt­varna­læknis á virkni bólu­efnisins á heila þjóð sé á­lit­legur kostur fyrir Pfizer. „Ég veit það ekki. Ég var búinn að heyra líka að það væru lönd sem voru til­búin að breyta fyrir­tækjum sínum til að fram­leiða meira bólu­efni fyrir Pfizer. Það er örugg­lega meiri á­vinningur af því fyrir Pfizer akkúrat núna.“

Spurningar sem nauðsynlegt er að svara


Eins og greint var frá rétt fyrir jól hafa bæði Kári og Þór­ólfur sett sig í sam­band við Pfizer og boðist til að fram­kvæma hér á landi rann­sókn á vikni efnisins á far­aldurinn meðal heillar þjóðar gegn því að fá nóg af bólu­efni fyrir alla Ís­lendinga í rann­sóknina.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við afhendingu bóluefnisins í morgun.
Fréttablaðið/Ernir

Frétta­blaðið náði tali af Þór­ólfi á blaða­manna­fundi sem haldinn var við af­hendingu fyrstu skammta bólu­efnisins í morgun í vöru­skemmu Dis­ti­ca. Þar lýsti hann hug­myndinni um rann­sóknina svo: „Það er mjög mikil­vægt að sjá hvernig lyf og bólu­efni virka raun­veru­lega þegar farið er að nota þau. Það skiptir mjög miklu máli. Við þurfum til dæmis að sjá hvernig það virkar á hjarðó­næmi og hvernig það virkar á mis­munandi stofna veirunnar. Við höfum alla burði hér innan­lands til að geta svarað þeim fjöl­mörgu spurningum sem nauð­syn­legt er að svara, ekki bara fyrir Ís­land eða Pfizer heldur fyrir öll lönd sem eru að hefja bólu­setningar.“

Spurður hvort sér þyki lík­legt að Pfizer lítist vel á að framkvæma rann­sókn á virkni efnisins á Ís­lendingum segir Þór­ólfur ein­fald­lega: „Ég veit það ekki. Það verður bara að koma í ljós.“