Ein af helstu perlum Víkna­slóða er Brúna­vík sem liggur sunnan Borgar­fjarðar eystra. Hún ber nafn með rentu því sléttur Brúna­víkur­sandurinn er fal­lega brúnn líkt og lípa­rít­klettar upp af honum sem kallast Hrafna­klettar.

Ef ekki væri fyrir kaldan sjóinn og ó­stöðugt veður­far væri þarna full­komin bað­strönd sem gæfi þeim í suð­rænum löndum ekkert eftir, enda skartar Brúna­vík tignar­legum fjall­görðum beggja vegna sem enda yst í sæ­bröttum hömrum. Upp af Brúna­vík er síðan mikill og fjöl­breyttur gróður með heiðum þar sem fífa um­lykur litlar tjarnir.

Í Brúnavík var löngum tvíbýli og þar var búið fram til ársins 1944.
MYND/TG

Í Brúna­vík var löngum tví­býli, enda til­tölu­lega snjó­létt og tún og engjar sem hentuðu vel til bú­skapar. Þarna var líka lending og stutt á feng­sæl fiski­mið sem gerði á­bú­endum kleift að stunda út­ræði með­fram bú­skap.

Það er auð­veldast að komast í Brúna­vík gangandi og liggur al­gengasta göngu­leiðin austan sér­lega reisu­legs lípa­rít­fjalls, Geit­fells (587 m). Er þá lagt af stað við sjón­varpsmastur á Öldu­hamri í Borgar­firði og gengið þaðan um Brúna­víkur­skarð sem liggur í 360 m hæð. Efst býðst frá­bært út­sýni til Dyr­fjalla og Dyr­fjalla­tinds en einnig sést vel yfir Borgar­fjörð. Stuttu síðar blasir lit­rík Brúna­vík við með einkar snoturri ströndinni.

Á leiðinni niður í Víkina er gengið fram hjá eyði­býlunum uns sést í neyðar­skýli SVFÍ. Þar er vaðið eða stiklað yfir Brúna­víkur­á sem rennur eftir dalnum og út í Víkina. Þarna má kasta mæðinni en í góðu veðri er til­valið að skella sér í sjósund og jafn­vel ná smá sól­brúnku. Saltan sjóinn má síðan skola af sér í litlum fossi í fyrr­nefndri á. Ganga fram og til baka úr Borgar­firði í Brúna­vík er 12 km og má hæg­lega ná á einum degi, og er busl í sjónum þá inni­falið. Í stað þess að ganga sömu leið til baka er val­kostur að ganga upp með Brúna­víkur­á að Brota­gili. Þar er göngu­brú yfir ána og veg­slóða síðan fylgt yfir Hof­strandar­skarð í Borgar­fjörð.

Einnig má ganga utar úr Brúna­vík yfir Hafnar­skarð að bænum Höfn sem er ysti bærinn í Borgar­firði. Sprækt göngu­fólk ætti hins vegar að þræða á­fram Víkna­slóðir á nokkrum dögum og skoða í leiðinni næstu perlur í háls­festi Víkna­slóða, Kjóls­vík og Breiðu­vík.