Artur Pawel Wisocki, annar hinna ákærðu í Shooters-málinu svokallaða, baðst undan því að sjá myndband af alvarlegri líkamsárás á skemmtistaðnum Shooters í sumar, þegar það var sýnt í héraðsdómi í dag. Lýsti hann mikilli iðrun en sagði starfsfólk á skemmtistaðnum hafa komið illa fram við sig frá upphafi. Aðalmeðferð í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og hófst málið á skýrslutöku Arturs sem sætt hefur gæsluvarðhaldi frá því í sumar vegna málsins.

Tveir eru ákærðir. Artur fyrir alvarlega líkamsárás gegn dyraverði á Shooters með þeim afleiðingum að dyravörðurinn lamaðist fyrir neðan háls eftir margþætt brot á hrygg. Artur er svo ákærður ásamt öðrum manni, David Kornacki, gegn öðrum dyraverði. Artur er sakaður um að hafa ráðist með grófum hætti á dyravörðinn og játaði hann sök við þingfestingu málsins, en fyrir dómi í dag játaði hann að hafa reitt dyraverðinum hnefahögg en neitaði að hafa hrint fórnarlambinu með fyrrnefndum afleiðingum. 

Vísað af staðnum en sneru aftur

Í skýrslutöku fyrir dómi í dag sagðist Artur dyraverði skemmtistaðarins hafa verið neikvæða gagnvart hópnum frá upphafi. „Bara strax þegar við mætum á staðinn þá var ekki tekið vel á móti okkur, ég talaði um þetta í skýrslutöku þarna hjá lögreglu. Við fundum alveg að viðhorf dyravarðanna gagnvart okkur voru neikvæð,“ sagði Artur. 

Sátu þeir þó um stund á skemmtistaðnum en segir Artur nokkur atvik hafa átt sér stað á skemmtistaðnum, þar á meðal hefði öðrum kúnna verið sparkað út, nokkuð harkalega að hans sögn. 

„Svo kom í ljós að þessi kúnni var Pólverji, samlandi okkar. Þá fór allt í uppnám og við stóðum allir upp. Dyravörðurinn tók upp svona kylfu og á ógnandi hátt fór að banka með kylfunni um hurðagafl,“ sagði Artur. Segir hann að á sama tíma hafi einhver stolið bjórnum þeirra og hópurinn hafi ekki verið par sáttur með það. Kom þá til orðaskipta milli þeirra og dyravarðanna sem leiddi til þess að þeim var vísað út af staðnum 

Hélt þá hópurinn á annann skemmtistað, Hressó þar sem Artur segist hafa fengið sér einn bjór og rætt við fleiri menn. 

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari þráspurði Artur hvers vegna hópurinn hafi snúið aftur á Shooters.

„Ég kann ekki að segja núna - ég hef enga útskýringu af hverju við gerðum það. Kannski einhverskonar mótmæli og við vorum að mótmæla á einhvern hátt en við fórum aftur á þennan stað, það kom til ryskinga og slagsmála og svo endaði það með slysinu," bætti hann við, en ágreiningur er um hvort Artur hafi hrint dyraverðinum harkalega eða ekki. Sækjandi fullyrðir að dyraverðinum hafi verið hrint á meðan Artur neitar því staðfastlega og segist allt eins hafa ætlað að „grípa hann“.

Vildi ekki horfa á upptökuna

Eftir að hópurinn sneri aftur á Shooters segir Artur hafa komið til slagsmála, sem endaði með fyrrnefndum afleiðingum. 

Upptaka af atvikinu var sýnd fyrir dómi en þar má sjá hvernig mennirnir komu aftur á skemmtistaðinn og veitast að dyravörðunum. Artur baðst undan því að þurfa að horfa á upptökuna aftur. „Ég veit það er engin afsökun en ég var undir áhrifum áfengis og þetta var ein sekúnda, það gerist svo hratt,“ sagði Artur og bætti við að hann hafi ekki farið á staðinn í þeim tilgangi að meiða dyravörðinn. Upptakan var samt sem áður sýnd og var Artur beðinn um að lýsa málsatvikum. 

„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef gert á ævinni og ég get ekki bætt fyrir það. Það var ekki ætlun mín að veita honum skaða.“

Sagðist Artur hafa átt fyrsta höggið og veitt dyraverðinum nokkur högg. Hann hafi svo hlaupið á eftir dyraverðinum þegar hann lagði á flótta. 

„Við duttum báðir. Hann meiddi sig og ég líka. Ég braut einhverja rúðu með handleggnum mínum,“ sagði Artur og tók fram að dimmt hefði verið á staðnum. 

Að lokum spurði verjandi Arturs hann út í líðan hans eftir umrætt kvöld. Sagðist honum aldrei hafa liðið jafn illa vegna þess sem gerðist, hann hefði átt erfitt með svefn og iðraðist mjög.