Það hefur löngum verið þekkt að mannfólkið nýti sér heitt vatn til þess að baða sig og hreinsa; ef ekki fékkst heitt vatn var það hitað til þess að geta nýtt það í þessum tilgangi. Þeir sem voru svo heppnir að búa nálægt heitum uppsprettum þurftu ekki að hita vatnið og nýttu sér það með ýmsum hætti.

Með aukinni þekkingu hefur komið í ljós að hitinn er aðeins hluti af því sem á að gera manni gott, steinefni og ýmis önnur efni hvort heldur sem er í heitu eða köldu vatni eru einnig talin hafa áhrif á líf og líðan fólks.Spa-menning ýmissa landa, þar með talið hér á Íslandi, er vel þekkt og líklega eru þau lönd sem líkjast okkar landi varðandi heitar uppsprettur líkt og Japan með einna lengsta sögu um notkun á heitu vatni. En í Mið-Evrópu er algengt að vatns- og baðmeðferðir séu hluti af því að viðhalda heilsu fólks og jafnvel niðurgreiddar af sjúkrasamlagi viðkomandi landa.

Vissulega hefur verið mikið atriði að sýna fram á með vísindalegri nálgun að hollt sé að baða sig í ákveðnu vatni sem og hitastigi, en það hafa komið fram nokkuð áhugaverðar rannsóknir sem styðja slíkt. Fæstir velkjast í vafa um þau áhrif sem slökun í heitum potti getur haft á einstaklinga almennt, en það er áhugavert að skyggnast í fræðin á bak við þetta.

Balneotherapy og Hydrotherapy eru nálganir í því sem kalla mætti óhefðbundin læknisfræði og hafa á síðustu áratugum verið að fá aukna athygli vísindamanna og ætla ég að tæpa á nokkrum af þeim jákvæðu atriðum sem hafa verið birt í þessu samhengi. Margar þessara rannsókna hafa verið gerðar á dýrum í tilraunaskyni til að lýsa áhrifum en nokkrar hafa einnig verið framkvæmdar á mönnum.Annars vegar er verið að horfa til eingöngu hita sem áhrifavalds en svo einnig innihalds vatnsins sem og sérstaklega í samhengi hvors tveggja.

Það sem hefur sýnt sig í þessum birtu rannsóknum er að steinefni og brennisteinssameindir virðast gera gagn. Í dýratilraunum sýndi sig að hitaálag vegna meðferðar sem er stillt upp með mismunandi hætti, en algengast eru regluleg böð í ákveðinn tíma, alla jafna 5-30 mínútur í senn nokkra daga í röð, hafði áhrif á bólguþætti, samsetningu blóðfitu og bættan sykurbúskap svo dæmi séu tekin.

Varðandi menn eru til rannsóknir sem sýna betra ástand sykursýki, lækkun á bólguþáttum í blóði, áhrif á ofþyngd, aukinn liðleika í liðum og vöðvum sem og minni verki og svo framvegis.Þá eru til ýmiss konar nálganir á inntöku en niður­staðan virðist vera mestmegnis að áhrif heits og hvera- eða steinaefnaríks vatns séu á ónæmiskerfið með ræsingu og dempun á efnum sem taka þátt í bólguferlum líkamans.

Þessar aðferðir hafa allar í gegnum tíðina verið nátengdar slökun í einhverju formi sem augljóslega er af hinu góða, bætir svefn og skýrir hugann hjá velflestum. Ekki veitir af í nútímasamfélagi, sem er jafn ríkt af heitum uppsprettum, sundlaugar á hverju strái hér sem og heitir pottar í sumarbústöðum og á heimilum, að hvetja til notkunar á þeim í heilsubætandi tilgangi hjá sem flestum aldurshópum, en þess má geta að forvarnir og meðhöndlun sjúkdóma og hrörnunar á grunni lífsstíls eru mikilvægasta áskorun allra heilbrigðiskerfa heimsins í dag auk hækkandi aldurs. Ef við getum notað það sem náttúran réttir okkur til aðstoðar þar þá eigum við að grípa það fegins hendi og ýta undir.