Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í Laugardalshöll í dag og stendur fram á sunnudag. Þar er búist við vel á annað þúsund fulltrúum Sjálfstæðisfélaga um allt land.

Á fundinum fer að vanda fram stefnumótun flokksins en efst á baugi verður formannsslagur Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra. Talsverður hiti hefur verið í kosningabaráttunni á undanförnum dögum.

„Við göngum glöð og bjartsýn inn í helgina og tökum öllu fagnandi,“ segir Gunnar Hnefill Örlygsson sem hefur tekið þátt í kosningabaráttu Guðlaugs Þórs. Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna, tekur í sama streng.

„Það er góð stemning hjá okkur. Við erum gríðarlega spennt fyrir fundinum og að hitta þetta góða fólk eftir langa bið,“ segir hann.