Maðurinn sem myrti kennara með hrotta­fengnum hætti í út­hverfi í Parísar­borg síð­degis í gær úti á götu bað nem­endur um að benda á kennarann áður en hann lét til skarar skríða. BBC greinir frá þessu.

Á­rásin átti sér stað í út­hverfi borgarinnar um fimm­leytið síð­degis í gær. Maðurinn réðst á kennarann með hníf og af­höfaði hann úti á götu. Hann birti svo myndir af fórnar­lambi sínu á sam­fé­lags­miðlum.

Fram kom í fréttum af morðinu í gær að morðið væri rann­sakað sem hryðju­verk. Kennarinn hafði fyrir tíu dögum síðan sýnt nem­endum sínum skop­myndir af Múhammeð spá­manni og telur lög­reglan það tengjast morðinu á manninum.

Fram kemur í frétt BBC að franska lög­reglan hafi hand­tekið tíu manns í dag sem taldir eru geta verið við­riðnir morðið. Emmanuel Macron for­dæmi morðið harð­lega í gær, sagði það hryðju­verk og sagði það bera öll merki þess að tengjast öfga­fullum íslam­istum.

Fórnar­lambið var nafn­greint í dag en hann hét Samuel Paty og var 47 ára gamall. Á­rásar­maðurinn var 18 ára gamall og hét Abdou­lakh A. Hann er sagður hafa elt Paty af skóla­lóðinni eftir að hafa beðið nem­endur um að benda sér á hann.