Joe Biden, ný­kjörinn for­seti Banda­ríkjanna, segir að hans nálgun að CO­VID-19 verði allt öðru­vísi en nálgun Donalds Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seta, en far­aldurinn hefur leikið Banda­ríkja­menn grátt síðustu mánuði. Til að tákna breytinguna hvatti Biden borgara til að nota grímu fyrstu 100 daganna eftir em­bættis­töku hans.

„Bara 100 daga til að nota grímu, ekki að ei­lífu. Hundrað dagar, og ég tel að við munum sjá mikil­vægan sam­drátt,“ sagði Biden í við­tali við CNN í gær þar sem einnig var rætt við Kamala Har­ris, ný­kjörinn vara­for­seta Banda­ríkjanna, en Biden og Har­ris taka við em­bætti 20. janúar 2021.

Við­brögð ríkis­stjórnar Trumps hafa verið harð­lega gagn­rýnd en Trump hefur í­trekað gert lítið úr hættum far­aldursins og neitað að hlusta á ráð­leggingar sér­fræðinga. Þá hefur hann í­trekað talað gegn grímu­notkun þrátt fyrir álit sér­fræðinga, til að mynda Ant­hony Fauci, helsta smit­sjúk­dóma­sér­fræðing Banda­ríkjanna, um að slíkt gæti komið í veg fyrir frekari út­breiðslu veirunnar.

Tilbúinn að láta bólusetja sig fyrir framan alþjóð

Að sögn Bidens hefur hann beðið Fauci um að ganga til liðs við sig og gegna sama hlut­verki og hann hefur gert síðustu mánuði. Þá yrði hann helsti ráð­gjafi for­setans í heil­brigðis­málum. Næsta mál á dag­skrá í heil­brigðis­málum er að sam­þykkja bólu­efni en Biden sagðist treysta Fauci al­farið í þeim málum.

„Þegar Fauci segir að við séum með bólu­efni sem er öruggt, þá mun ég standa frammi fyrir al­þjóð og segja það,“ sagði Biden en hann sagðist til­búinn til að láta bólu­setja sig opin­ber­lega til að auka traust þjóðarinnar. Biden fetar þar með í fót­spor fyrrum Banda­ríkja­for­setanna Obama, Bush og Clin­ton sem til­kynntu fyrr í vikunni að þeir væru til­búnir að láta bólu­setja sig í beinni.

Bregðast þurfi við erfiðri stöðu í efnahagsmálum

Biden og Har­ris eiga erfitt verk fyrir höndum en líkt og heil­brigðis­kerfið hefur efna­hagur Banda­ríkjanna hefur orðið fyrir miklu höggi vegna far­aldursins. Í við­talinu vísaði Biden til þess að staðan í dag væri ekki ólík stöðunni árið 1932 þegar Franklin Roose­velt var kjörinn for­seti Banda­ríkjanna. Fólk væri kvíðið yfir stöðu mála og bregðast þurfi við því.

Erfitt hefur reynst að koma efna­hags­pakka vegna far­aldursins í gegnum Banda­ríkja­þing en Demó­kratar og Repúblikanar eru ó­sam­mála um ýmis­legt í þeim málum. Eins og staðan er í dag er 900 milljarða Banda­ríkja­dala efna­hags­pakki til um­ræðu innan þingsins en Biden sagði að um nauð­syn­legt fyrsta skref væri að ræða til að bregðast við far­aldrinum.

Heildarfjöldi dauðsfalla meiri en 1,5 milljónir á heimsvísu

Í gær greindust tæp­lega 219 þúsund manns með veiruna auk þess sem rúm­lega 2.900 manns létust vegna CO­VID-19 en um er að ræða mesta fjölda frá því að CO­VID-19 kom upp í Banda­ríkjunum. Þá hefur inn­lögnum á spítala einnig aukist tölu­vert en alls eru nú rúm­lega 100 þúsund inni­liggjandi, þar af tæp­lega 20 þúsund á gjör­gæslu og tæp­lega sjö þúsund í öndunar­vél.

Banda­ríkin eru með lang flest stað­fest til­felli á heims­vísu en frá upp­hafi hafa rúm­lega 14,1 milljón manns greinst með veiruna og rúm­lega 276 þúsund látist. Á heims­vísu hafa tæp­lega 65,3 milljón til­felli smits verið stað­fest og hafa fleiri en 1,5 milljón manns látist eftir að hafa smitast.

Beðið er nú í ofvæni eftir komu bóluefnis en margar þjóðir segjast vona að hægt verði að hefja bólusetningu strax eftir áramót. Þrjú bóluefni eru helst til skoðunar en Bretar voru fyrstir til að heimila notkun Pfizer/BioNTech bóluefnisins fyrr í vikunni auk þess sem verið er að fara yfir gögn vegna bóluefnis Moderna og bóluefnis AstraZeneca.