Bandarísku raunveruleikaþættirnir The Bachelor fengu yfir 75 milljóna króna endurgreiðslu frá íslenska ríkinu vegna töku lokaþáttanna hér á landi.

Frá þessu er greint á vef Kvikmyndastöðvar Íslands og er þetta hæsta endurgreiðslan sem greidd hefur verið út vegna kvimynda- og sjónvarpsþáttagerðar á Íslandi það sem af er ári 2022.

Þetta þýðir jafnframt að framleiðsla lokaþáttanna hér á landi hafi kostað að minnsta kosti 300 milljónir króna.

Mbl greindi fyrst frá.

Landkynning meðal skilyrða

Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslu á allt að 25 prósentum af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi.

Þetta er þó skilyrðum háð, viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu eða þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.

Endurgreiðslurnar standa bæði innlendum og erlendum aðilum til boða að skilyrðum uppfylltum en hafi meira en 80 prósent af framleiðslukostnaði fallið til hérlendis er jafnframt endurgreidd 25 prósent af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á evrópsku efnahagssvæði.

Ekki ókeypis landkynning

Fréttablaðið greindi frá því á fimmtudaginn síðastliðinn að framleiðsla þáttanna hér á landi feli í sér landkynningu sem sé gríðarlega verðmæt.

„Þetta hefur mjög mikið að segja og vekur áhuga hjá fólki á að ferðast til Íslands,“ sagði Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, í samtali við Fréttablaðið.

Hjalti Már Einarsson, viðskiptaþróunarstjóri hjá Datera var sammála og sagði þáttinn hafa gríðarlega jákvæð áhrif á Ísland sem áfangastað.

Nú er ljóst að þessi verðmæta landkynning hefur ekki verið með öllu ókeypis, en ríkið endurgreiddi 75.364.981 krónu til Bachelor vegna framleiðslu þáttanna hér á landi.