Axel Pétur Axelsson, sjálftitlaður þjóðfélagsverkfræðingur, hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta Íslands. „Fyrsta sem ég mun gera ef ég verð forseti er að reka alla ríkisstjórnina eins og hún leggur sig,“ segir Axel Pétur í samtali við Fréttablaðið. Spurður um hvort að forseti hefur vald til þess að reka alla ríkisstjórnina segir hann svo vera. Þá er rétt að taka fram að á Ís­landi er þing­ræði og það felur í sér að að­eins Al­þingi getur vikið ríkis­stjórn frá með því að sam­þykkja van­traust á ríkis­stjórnina.

Spurður um hvað hann mun leggja áherslu á í framboði sínu til forseta segist hann ætla fylgja þeirri hugsjón sem er á FrelsiTV. „Ég mun gera Íslendinga sjálfveldinga þ.e. sjálfvalda. Ég mun styðja að stefna Vikingaflokksins nái fram að ganga.“

Hann segist byrjaður að safna undirskriftum en hann er hins vegar sannfærður um að kosningarnar verða ógildar með öllu. „Vand­ræða­gemsinn sem ég er þá lýsi ég því yfir nú þegar að þessar kosningar eru með öllu ó­gildar og lýð­ræðið er fallið á hliðina. Það eru ákveðin tímamörk, ég hef ekki getað gert neitt, ferðast neitt því það er allt fast,“ segir Axel Pétur en kórónuveiran hefur hamlað för manna milli landa. „Þeir sem að vilja safna fyrir mig geta það ekki,“ segir Axel Pétur.

Allar líkur eru á því að undirskriftasöfnun mun fara fram með rafrænum hætti fyrir forsetakosningarnar í ár og verður þar af leiðandi auðveldari en áður að safna undirskriftum. Kosningar verða haldnar ef mótframboð gegn Guðna Th. Jóhannessyni nær nægilega mörgum undirskriftum. Forsetakosningar hafa í gegnum árin verið að kosta ríkissjóð um 300 milljónir króna.

Axel er bú­settur í Sví­þjóð en sam­kvæmt 4.gr stjórnar­skrár Ís­lands þarf ekki að hafa fasta bú­setu á Ís­landi til þess að bjóða sig fram til for­seta.