Axarárás sem átti sér stað við Dalskóla í Úlfarsársdal í fyrrakvöld er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið.

„Árás með vopni af þessu tagi er rannsökuð sem tilraun til manndráps,“ segir hann.

Maðurinn, sem er grunaður um að ráðast að fyrrverandi eiginkonu sinni, var samkvæmt Grími handtekinn í beinu framhaldi árásarinnar.

Hann segir að strax hafi verið ljóst að konan hafi verið talsvert slösuð, en hún hafi ekki verið í lífshættu.

Vísir greindi fyrst frá málinu í gærkvöld, en í frétt miðilsins var vísað til tölvupóstar sem foreldrar barna í skólanum fengu. Í honum kemur fram að atvikið sem um ræðir snertir tvö börn sem eru í skólanum.

Þá kom jafnframt fram að mörg vitni hefðu verið að árásinni, þar á meðal börn.

Grímur segir við Fréttablaðið að lögreglan hafi í samstarfi við skólann séð til þess að þeir sem þurfi á því að halda muni fá áfallahjálp.