Kristlín Dís Ingilínardóttir
Laugardagur 27. febrúar 2021
12.00 GMT

Alma Glóð Kristbergsdóttir er svokölluð einstök móðir, en hún ákvað að eignast barn ein og upp á eigin spýtur með aðstoð gjafasæðis aðeins 22 ára gömul. „Það tekur sumar konur töluvert lengri tíma að taka þessa ákvörðun en þetta var eitthvað sem mig hefur alltaf dreymt um og var þess vegna ein auðveldasta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Alma brosandi.

Það vill svo til að Alma er yngsta konan á Íslandi sem hefur farið í gegnum tæknifrjóvgun af þessu tagi. „Ég komst reyndar ekki að því fyrr en eftir á, svo það var ekki keppnisskap sem dreif mig áfram,“ segir Alma og hlær.

Ákvörðunin um að eignast barn ein var tekin þegar Alma hafði nýlokið við fyrstu önn í læknanámi í Háskóla Íslands. „Þá hafði ég loksins tækifæri til að slá til og sá fram á að ég gæti séð fyrir barni.“


„Það tekur sumar konur töluvert lengri tíma að taka þessa ákvörðun."


Fer ekki hefðbundnar leiðir

Alma valdi að segja aðeins sínum allra nánustu frá ákvörðuninni í byrjun. „Ég var stressuð að segja frá þessu og fá mögulega neikvæð viðbrögð.“ Það hafi komið á óvart að flestir drógu það ekki í efa að hún gæti gert þetta ein. „Fólk sem þekkir mig veit að ég fer ekki hefðbundnar leiðir í lífinu,“ útskýrir hún.

„Ég bjóst samt alveg við því að fá holskeflu af athugasemdum eins og „ætlarðu í alvörunni að gera þetta?“ og „gerirðu þér grein fyrir hvað þú ert að fara út í?“ og fleiri spurningar, en það gerðist aldrei,“ segir Alma sem var því fegin. „Fólk hefur eflaust sína skoðun en það hefur hingað til haldið henni út af fyrir sig, sem ég er mjög þakklát fyrir.“

„Fólk hefur eflaust sína skoðun en það hefur hingað til haldið henni út af fyrir sig, sem ég er mjög þakklát fyrir.“

Alma kveðst aldrei hafa gert sér neinar grillur um að uppeldið yrði auðvelt. „Auðvitað er það erfiðara að vera ein, ein að taka ákvarðanir, ein að sjá um innkomu og ein að taka ábyrgðina.“ Það séu punktar sem vert sé að hugsa um. „En þó að eitthvað sé erfitt er það samt þess virði ef þetta er það sem maður vill.“

Alma segist ekki vilja hafa það öðruvísi en að vera ein með son sinn, allavega í bili.
Fréttablaðið/Stefán

Flókið að velja sæði

Það leið þó heil meðganga frá ákvörðuninni þar til Alma fór í uppsetningu og á þeim tíma var í mörg horn að líta. Eitt af því fyrsta var að finna rétta gjafasæðið í Evrópska sæðisbankanum. „Að velja sæði er smá eins og að kaupa föt á netinu,“ bendir Alma á. „Þú setur sæðið í körfuna og tékkar svo út, sem er mjög óraunveruleg tilfinning.“

Þúsundir gjafa eru í boði og auðvelt að týnast í smáatriðum. „Það er hægt að þrengja leitina með því að velja sæði út frá augnlit, blóðflokki, menntun, starfi og fleira.“ Fyrir Ölmu var eitt það mikilvægasta að velja opinn gjafa þannig að sonur hennar gæti haft uppi á föður sínum þegar hann verður 18 ára. „Ef hann skyldi vilja það.“

Rétti gjafinn fannst á mettíma og hófst þá ferlið. „Ég bókaði tíma hjá Livio hérna heima en það var fimm mánaða bið í að fá að hefja meðferðina svo mér datt í hug að ég gæti nýtt ferðina mína til Kenýa til að fara í uppsetningu þar,“ segir Alma. Það sé ekki sjálfgefið að uppsetning heppnist í fyrstu tilraun og vildi hún því auka líkurnar.

Sæðið festist í tollinum

Það tók sinn tíma að senda sæðið frá sæðisbankanum í Danmörku og festist það í heilar þrjár vikur í tollinum. „Þetta var alls engin skyndiákvörðun svo það var nægur tími áður en ég átti flug út,“ segir Alma, sem fór þó beint frá flugvellinum í Kenýa á læknastofuna. Þar fékk hún frjósemislyf og uppsetningin var skipulögð.

Ákveðin tilhlökkun hafi fylgt því að fara í uppsetninguna en Alma gætti þess að gera sér ekki of miklar væntingar. „Ég var alls ekki að búast við því að þetta myndi takast í fyrstu tilraun og gerði eiginlega ráð fyrir að þetta myndi taka nokkur skipti.“ Flugið heim til Íslands hafi því verið spennuþrungið, en um leið og Alma lenti í Keflavík tók hún óléttupróf.

„Ég var alls ekki að búast við því að þetta myndi takast í fyrstu tilraun."

Þegar tvær bláar línur blöstu við henni gat hún varla á sér setið. „Ég eiginlega trúði því ekki þegar ég sá þetta að það hefði tekist og þorði varla að láta fjölskylduna vita.“ Allt gekk þó eins og í sögu og níu mánuðum seinna fæddist heilbrigður drengur.

Barnapressan horfin

Eftir að drengurinn fæddist kvisaðist það út að Alma hefði eignast hann með aðstoð tæknifrjóvgunar. Að hennar sögn tóku því flestir fagnandi. „Það eru allir að segja mér hvað ég sé hugrökk að gera þetta ein, en mér finnst ég ekki vera neitt hugrökk því þetta var bara það eina rétta í stöðunni fyrir mig,“ útskýrir Alma.

„Ég fann að ef ég hefði farið út í samband eða reynt að finna einhvern maka þá hefði þessi pressa um að eignast barn komið strax.“ Þegar annar aðilinn sé tekinn úr jöfnunni auðveldist málin til muna. „Núna er þessi pressa ekki til staðar og komi einhvern tímann einhver maki inn í myndina þá veit sá aðili að mér fylgir barn, sem mun alltaf verða í fyrsta sæti.“

Alma Glóð og Máni
Fréttablaðið/Stefán

Á fullu í læknisfræðinni

Drengurinn verður tíu mánaða um helgina og braggast vel. Alma sinnir fullu læknisfræðinámi meðfram uppeldinu en var í hálfu námi fyrir áramót. „Ég mun líklega útskrifast hálfu ári seinna ef allt gengur upp.“

Alma telur að það hefði verið erfiðara að sinna náminu ef ekki væri fyrir faraldurinn. „Ég er núna í fjarnámi í skólanum og hef þess vegna getað sinnt náminu á mínum eigin tíma á meðan hann sefur.“

Aðspurð hvort námið hafi aldrei dregið úr staðfestunni um að eignast barn segir Alma það þvert á móti hafa styrkt hana í ákvörðunartökunni. „Ég sá fyrir mér að það yrði auðveldara að vera ein með barn í námi, þar sem tíminn er sveigjanlegri og ég hef aðgang að stúdentaíbúð og ungbarnaleikskóla.“

Þá sé hún heppin að drengurinn taki langa lúra yfir daginn þannig að hún geti lært. „Einkunnirnar hafa auðvitað fengið eitthvað að kenna á því en mitt markmið er frekar að skilja efnið en að ná hæstu einkunnum.“


„Mín leið hefði örugglega ekki verið félagslega samþykkt fyrir einhverjum árum en það er klárlega að breytast.“


Einstæð að eigin vali

Alma viðurkennir að frá því sonur hennar fæddist hafi krefjandi nætur þó nokkrum sinnum skotið upp kollinum. „Þá hef ég alveg hugsað að það væri gott að hafa einhvern annan með, en svo þegar líður á morguninn þá er það búið og gleymt.“ Hún myndi ekki vilja hafa þetta öðruvísi en að vera ein. „Hver veit hvort það muni breytast seinna en þannig líður mér núna.“

Það er allt öðruvísi að mati Ölmu að vera einstætt foreldri þegar það er fyrir fram ákveðið. Þess vegna taki hún áskorunum fagnandi. „Ég ákvað þetta alveg frá byrjun og var búin að sjá líf mitt fyrir mér, ein með syni mínum, áður en hann fæddist.“ Ef foreldri verði á ófyrirsjáanlegan hátt eitt geti það verið stærri biti að kyngja. „Þá lendir maður á svo miklum vegg af því að maður sá aldrei fyrir sér að vera ein með barnið.“

„Þegar maður veit að maður vill eitthvað þarf maður ekki að bíða.“

Þar spili einnig inn í að samfélagið geri yfirleitt ráð fyrir tveimur foreldrum af andstæðu kyni.„Auðvitað eru til fleiri tegundir af fjölskyldum en bara mamma, pabbi og barn,“ ítrekar Alma. Sú staðreynd sé hægt og rólega að ryðja sér til rúms í huga almennings.

„Mín leið hefði örugglega ekki verið félagslega samþykkt fyrir einhverjum árum en það er klárlega að breytast.“ Ekkert ætti því að hindra fólk í að elta drauminn og stofna fjölskyldu, sama hvernig hún verður til. „Þegar maður veit að maður vill eitthvað þarf maður ekki að bíða,“ segir Alma að lokum með ákveðnum tón.

Athugasemdir