Odd­ný Björk Daníels­dóttir býr á­samt eigin­manni sínum Sveini Ágústi Þórs­syni og fimm ára gamalli dóttur þeirra Heið­nýju Björk á hættu­svæðinu á Seyðis­firði. Oddný upp­lifir sig ekki lengur örugga á Seyðis­firði en dóttir þeirra hjóna á það til að leika sér í fjalls­hlíðinni og á bak við Tækni­minja­safnið sem varð fyrir miklum skemmdum í seinni aur­skriðunni.

Fjöl­skyldan veit ekki hve­nær hún má fara aftur heim til sín en Odd­ný, sem var sem betur fer ekki heima þegar seinni skriðan féll, er afar ó­sátt með að húsið hennar hafi ekki verið á upp­haf­legri rýmingar­á­ætlun yfir­valda. Húsið er hins vegar núna á skil­greindu hættu­svæði en fyrir um þrjá­tíu árum síðan fór skriða í gegnum sama hús.

Í­búar sem búa ekki á skil­greindu hættu­svæði fengu að fara heim til sín klukkan hálf þrjú í dag á meðan þeir sem búa á hættu­svæði voru flestallir enn í fjölda­hjálpar­mið­stöð Rauða krossins í Egils­staða­skóla, þar sem Oddný hitti blaðamann Fréttablaðsins.

„Á þriðju­daginn eftir að fyrsta skriðan féll. Þá fórum við úr húsinu og höfum ekki verið heima hjá okkur síðan. Við höfum verið hjá frænd­fólki okkar sem býr við hliðina á búðinni. Alveg á öruggu svæði en við vorum samt alltaf á leiðinni heim,“ segir Odd­ný sem er enn í á­falli eftir síðustu daga.

„Lög­reglan hringdi í okkur og bað okkur um að vera ekki heima en húsið okkar var aldrei rýmt. Auð­vitað út af því hvar við búum leið okkur ekkert vel heima. Við vorum ekkert örugg þar.“

Oddný Björk Daníelsdóttir í fjöldahjálpamiðstöð Rauða krossins í Egils­staða­skóla í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þakleki lán í óláni

„Við hringdum í Veður­stofuna þegar búið var að rýma húsin og vildum vita af hverju okkar hús stæði fyrir utan. Þá var okkur sagt að skriðan sem kemur á okkar hús hún mun koma svo hátt að ofan og þar er allt gadd­freðið þannig við værum ekki í neinni hættu,“ segir Odd­ný

„Svo fór ég heim á fimmtu­daginn og þá byrjaði þakið mitt að leka. Ég steig í poll og bugaðist og á­kvað því bara að vera ekkert meira heima.“

Lög­reglan á Austur­landi var búin að láta fjöl­skylduna vita að vera ekki í kjallaranum og ekki snúa upp í fjall. Þá voru þau beðin um að láta vita ef þau ætluðu að sofa í húsinu.

„Þannig ég fór inn eftir aftur og ætlaði svo að fara út eftir og þá féll skriðan sem tók Breiða­blik og lokaði götunni. Ég ætlaði bara að vera heima hjá mér að vinna og klára skrifa jóla­kort en sem betur fer komst ég ekki heim. Því öll gatan er farinn nema húsið okkar eigin­lega,“ segir Odd­ný.

„Ég var sem betur fer í húsinu sem við vorum að dvelja í. Svo heyrðum við drunurnar. Ég veit ekki hvað þetta var langur tími en leið eins og þetta væri ó­geðs­lega langur tími og við sáum ekki neitt. Þegar drunurnar voru hættar þá fáum við sím­hringingu og þá leit þetta út eins og húsið mitt væri farið. Svo bara á ég hús sem ég kemst ekki heim í.“

Hún segir að þau búist ekki við því að komast heim strax eftir ára­mót. „Við erum hugsan­lega bara heimilis­laus á­fram.“

„Við vitum líka ekki hvort við viljum búa þarna á­fram og erum ekki að gera ráð fyrir því að við megum það. Þetta er náttúru­lega fer­legt.“

Hús þeirra hjóna slapp vel við miklar skemmdir en Oddný veit ekki hvenær hún má fara heim að nýju.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Sem betur fer var enginn heima“

Odd­ný og fjöl­skylda hennar búa á efstu hæð hússins, svo býr ungt par fyrir neðan þau og ein kona í kjallaranum. „Sem betur fer var enginn heima,“ segir Odd­ný.

„Þessi á mið­hæðinni ætluðu að vera heima og það fyrsta sem ég geri þegar skriðan var fallinn var að hringja í þau. Þau voru niður í Herðu­breið og höfðu ekki heyrt neitt og vissu ekki neitt.“

Hún segir drunurnar hafa heyrst vel í firðinum. „Ég held þetta hafi heyrst alls staðar.“

Maðurinn minn var á Egils­stöðum að vinna og ég hringi í hann. Þá höldum við bæði að húsið okkar sé farið. Hann kom niður eftir strax. Dóttir okkar átti að fara í heim­sókn eftir leik­skóla og hún var sótt um leið og drunurnar voru búnar.

„Svo fórum við náttúru­lega bara og biðum eftir fréttum. Vorum búin að pakka töskur og vorum til­búin að fara um leið það koma.“

Hún segist ekki hafa hug­mynd um það hve­nær hún geti farið heim til sín að sækja eigur sínar.

„Það er ekki búið að af­létta rýmingunni þarna megin í firðinum og þegar það má fara aftur heim til sín þá komust við bara á bát. Þannig við erum ekkert að fara heim fyrr en það er búið að hreinsa allt. Þannig við ætlum bara að fara suður um jólin og svo tökum við næsta skref“

„Við erum of­boðs­lega þakk­lát. Vinur okkur missti húsið sitt sem hann hefur verið að nostra við í sex ár. Hann missti allt. Við erum þakk­lát fyrir að húsið okkar standi og að enginn hafi slasast.“

Hún er jafn­framt þakk­lát fyrir alla vel­vildina sem Seyðis­firðingum er sýnd þessa daganna.

Hennar heimur er horfinn

Odd­ný segir að síðustu dagar hafa verið erfiðir en hún og maðurinn hennar hafi sótt á­falla­hjálp eftir á­fallið.

„Við förum náttúru­lega bara upp og niður. Við erum búin að gráta fullt og hlæja fullt og gera alls­konar grín líka af þessu en svo líka bara tala um þetta. Við fengum að­stoð í morgun. En við á­kváðum líka að senda dóttur okkar til Reykja­víkur á undan okkur í morgun. Við þurfum þá ekki að hugsa um hana og getum hugsað um okkur. En hún veit ekki hvað gerðist. Hún hefur ekki hug­mynd um að öll húsin eru farin.“

„Við vitum bara ekki alveg hvernig við eigum að segja henni það. Því þetta svæði er bók­staf­lega leik­svæðið hennar. Hún er eina barnið sem býr svona utar­lega í firðinum.“

Hún segir dóttir sýna vel með­vitaða um þær hættur sem leynast í sínu nær­um­hverfi t.d í um­ferðinni og niður við sjó. Aurskriðan hafi hins vegar fallið sem fyrr segir beint á leiksvæðið hennar.

„Hún er alltaf að leika sér í fjallinu eða fyrir aftan Tækni­minja­safnið. Svo bjuggu vin­konur hennar í Fram­húsi og hennar heimur er bara horfinn. Við erum bara enn þá að ná utan um þetta sjálf og svo tökum við bara á því þegar við förum suður og líka bara þegar við erum búin að sjá þetta og vitum hvað þetta er,“ segir Odd­ný

Heiðný Björk að leika sér bak við Tækniminjasafnið.
Ljósmynd/aðsend

Framtíð fjölskyldunnar óljós

„Við vitum ekkert með fram­tíðina. Ég er ekkert viss um að við viljum búa þarna á­fram. Það kom líka fluga í hausinn á mér um hvort ég vilji búa á Seyðis­firði. Þetta er eitt stórt hættu­svæði, hinu megin er snjó­flóða­hætta. Á húsinu okkar er jafn mikill snjó­flóða­hætta og aur­flóða­hætta,“ segir Oddný.

„Það er bara engar varnir og maður verður líka ó­trú­lega reiður. Ég hef alltaf sagt því við höfum búið í þessu húsi í sjö ár. Þar á undan átti frændi minn þetta hús þannig við höfum alltaf vitað af hættunni og af þessari skriðu sem fór í gegn.Við vitum alveg eftir hverju við eigum að horfa á eftir og hve­nær við þurfum að fara og svona.“

Oddný segir að húsið þeirra hefur aldrei verið rýmt en þetta sé hins vegar ekki í fyrsta skipti sem fjölskyldan fer úr húsinu vegna hættuástands.

„Ég hef oft sagt „nei það er allt í lagi að búa þarna“ maður fylgist bara með læknum og svo er fylgst vel með þessu og svona. En þetta er bara ekki rétt því svo kemur bara stór skriða og sópar þessu í burtu og þá verða allir allt í einu rosa­lega hissa.“