Aurskriða féll við Teigarhorn í gærkvöldi sem varð til þess að háspennulína skemmdist.

Vott snjóflóð féll í Seyðisfirði utan þéttbýlis að sögn Veðurstofu Íslands. Rýmingu á Seyðisfirði hefur verið aflétt en hættustigi vegna snjóflóða var lýst yfir í gær frá klukkan 20:00 og hefur nú verið aflétt. Rýma þurfti tvo reiti, númer fjögur og sex undir Strandartindi í gærkvöldi vegna hættu á snjóflóðum.

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa verið á staðnum og notað sjálfvirk mælitæki og fylgst náið með aðstæðum. Seint í nótt stytti upp en samkvæmt spá verður úrkomulítið á Austurlandi og áfram hlýtt og leysing nú þegar styttist í vormánuðina.

Annað snjóflóð féll í gær á þjóðveg 1 úr Grænafelli í Reyðarfirði og lokaði veginum

Einnig féll krapaflóð í Öræfasveit, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.

Viðbúið er að fleiri flóð hafi fallið austan- og suðaustan lands sem koma í ljós þegar birtir.

Aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember.
Fréttablaðið/Anton Brink