Starfsfólk Bankasýslunnar fékk vínflöskur, flugelda og jafnvel konfektkassa þegar það vann að útboði á sölu Íslandsbanka fyrir hönd ríkisins.

Gjafirnar minna á gamla tíma fyrir hrun þegar risna var nánast daglegt orð í íslenskum fjölmiðlum. Flestir eru þó sammála um að gjafirnar séu hálfmáttlausar en fyrir hrun var þeim sem þurfti að sannfæra hið minnsta boðið í laxveiðitúr.


„Við fengum þarna einhverjar vínflöskur og flugelda og konfektkassa. Svo náttúrlega eru hádegisverðir og kvöldverðir með ráðgjöfum en ekkert annað,“ svaraði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, á opnum fundi fjárlaganefndar í gær. Formaður nefndarinnar, Bjarkey Olsen, spurði hann hvort starfsfólk hefði nýtt sér eða þegið boð eða gjafir í aðdraganda útboðanna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.


„Ísland hlýtur að vera eina landið á þessari vetrarbraut sem býður flugelda sem mútur. Og þiggur þær,“ skrifaði Bragi Valdimar Skúlason á samfélagsmiðilinn Twitter og uppskar dynjandi lófatak frá notendum miðilsins.


Stórleikkonan Edda Björgvinsdóttir sagði á Facebook-síðu Helgu Völu Helgadóttur, þar sem flugeldarnir og konfektið voru rædd í þaula: „You can't make this shit up,“ og setti þrjú upphrópunarmerki með. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði einfaldlega ha og Ólína Þorvarðardóttir varð orðlaus á þræðinum. „Ég á ekki orð! Þetta eru mútur.“


Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, trúði vart sínum eigin eyrum þegar hann heyrði af gjöfum starfsfólks Bankasýslunnar. „Það getur varla verið að starfsfólkið breyti um skoðun fyrir eitthvað svona,“ segir hann í léttum dúr.


Hann bendir þó á að þetta sé ekkert sérstakt gamanmál þótt hann geti tæplega varist hlátrasköllum yfir flugeldum og hádegisverði starfsfólksins. „Þeir sem eru í störfum fyrir Bankasýsluna þurfa og eiga að passa sig mjög vel. Það á að gæta sín, og ég er ekkert endilega að segja að svona hafi einhver áhrif á fólk, en það þarf að fara mjög varlega í svona störfum. Það er alveg ljóst.


"Það er auðvitað sorglegur undirtónn í þessu því þetta útboð er vissulega klúður frá upphafi til enda. Það hefði verið hægt að gera þetta af meiri fagmennsku.

En þessar gjafir segja kannski hvað mikil vinna var lögð í þetta,“ segir Guðmundur.