Í nýrri könnun Gallup um rafhlaupahjólanotkun í Reykjavík kemur fram að tæplega helmingur svarenda notar hjólin í ferðir til eða frá skemmtistöðum, veitingastöðum og börum.

Það er aukning frá sambærilegri könnun í árslok 2020. Er könnunin var rædd í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur kallaði Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, eftir fræðsluátaki um hættuna af því að ferðast á rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis og vímuefna.

Fólk með háskólapróf var talsvert líklegra til að nota hjólin til að fara á skemmtistaði, veitingastaði og bari, 54 prósent svöruðu játandi.Þrjú þúsund einstaklingar voru í úrtakinu og var þátttökuhlutfallið 46,2 prósent.

Tæplega 18 prósent eru með rafhlaupahjól á heimilinu og rúmlega þriðjungur notar þau að staðaldri.

Alls 43 prósent höfðu aldrei prófað rafhlaupahjól en 72 prósent 18 til 24 ára nota þau. Sjö prósent 65 ára eða eldri nota hjólin.

Tíu prósent svarenda hafa lent í óhappi á rafhlaupahjóli og 1 prósent í óhappi undir áhrifum áfengis.