Jarðhræringar á Reykjanesskaga geta aukið hættu á stórum skjálfta nærri höfuðborgarsvæðinu, segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.

Hann segir að þar séu „misgengi sem stefna ekki suðvestur-norðaustur eins og þau sem mest eru virk heldur norður-suður, svipað eins og er á Suðurlandinu sjálfu. Þar geta orðið skjálftar sem eru stærri en sex að stærð.“ Skjálfti sem varð árið 1929 hafi verið af slíkri stærð og haft mikil áhrif í Reykjavík og annar stór skjálfti hafi orðið á sama misgenginu 1968.

Sú mikla virkni sem hefur átt sér stað á Reykjanesskaga undanfarið geti haft áhrif á þetta norður-suður misgengi og haft í för með sér stóran skjálfta. Skjálftar þar verði venjulega tvisvar á öld og nú sé kominn tími á skjálfta.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.
Fréttablaðið/Valli

Talsvert tjón geti orðið af stórum skjálfta

Ari Trausti segir talsvert tjón geta orðið af stórum skjálftum svo nærri höfuðborginni, lausir munir fallið og sprunguskemmdir orðið í húsum. Þá sé byggðin komin mun nær mögulegum upptökum þessara skjálfta en var við stóru skjálftana sem þarna urðu 1929 og 1968.