Skjálfti að stærð 3,6 varð í morgun klukkan 06:10 við Grímsvötn ásamt nokkrum eftirskjálftum. Stærsti eftirskjálftinn var 2,3 að stærð.

„Það eru líkur á eldgosi þó það mælist ekki gosórói,“ sagði sérfræðingur Veðurstofu Íslands í samtali við Fréttablaðið.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofunni segir þessa skjálftavirkni óvenjulega og hafi því fluglitakóði verið færður úr gulum í appelsínugulan.

Samkvæmt skilgreiningu er uppfærsla á fluglitakóðanum í appelsínugult þegar að eldstöð sýnir aukna virkni og vaxandi líkur eru á eldgosi. Veðurstofan fylgist náið með Grímsvötnum en gasmælar sýna ekki merki um að gos sé hafið.

„Það myndi hugsanlega sjást á gasmælum ef gos væri nærri því að hefjast eða hafið. Þetta eru aðallega skjálftamælarnir sem sýna merki um auknar líkur á eldgosi,“ segir Einar Bessi.

„Þetta eru stærri skjálftar en við sjáum vanalega við Grímsvötn og óvenjuleg virkni. Stærðin og fjöldi eftirskjálfta veldur því að við breytum kóðanum. Nú er ekkert annað að gera en að fylgjast með þróuninni.“

Mikið hefur hægt á siginu og hlaupóróinn minnkað svo draga má þá ályktun að vötnin séu búin að tæma sig að mestu.