Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur varað við því að nýlegar loftskeytaárásir á kjarnorkuverið í Zaporízjzja, stærsta kjarnorkuver í Evrópu, sýni fram á að Evrópa eigi í raunhæfri hættu á kjarnorkustórslysi vegna stríðsins í Úkraínu. Rafael Grossi, framkvæmdastjóri IAEA, brýndi fyrir stríðsaðilum að gang fram af ýtrustu varkárni í kringum kjarnorkuverið og ítrekaði beiðni sína um að sérfræðingar stofnunarinnar fái aðgang að verinu til að gæta þess að aðbúnaður sé réttur.

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, kallaði í dag eftir því að alþjóðlegir eftirlitsmenn fái aðgang að verinu og varaði við því að allar árásir á það myndu jafngilda sjálfsmorði. Hann lét þau orð falla á meðan hann var viðstaddur minningarathöfn um kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki í Japan.

Hvorki Rússar né Úkraínumenn vilja gangast við því að hafa ráðist á kjarnorkuverið, heldur benda þeir fingrum hver á annan. Volodymyr Zelenskyj, forseti Úkraínu, sakaði Rússa um að standa fyrir „kjarnorkuhryðjuverkum“ og hvatti alþjóðasamfélagið til að grípa til sterkari aðgerða vegna árásanna. Stjórnvöld í Kreml segja Úkraínumenn hins vegar hafa gert árásirnar á kjarnorkuverið og hafa brýnt fyrir Vesturlöndum, sem þau segja hafa „úrslitavald“ yfir ákvörðunum Úkraínustjórnar, að stöðva árásirnar.

Kjarnorkuverið er nú undir stjórn Rússa, sem hröktu Úkraínumenn þaðan í byrjun mars. Starfsmenn í verinu eru þó enn að meirihluta úkraínskir. Petro Kotín, framkvæmdastjóri úkraínska ríkiskjarnorkufélagsins Energoatom, stakk upp á því að gera ætti kjarnorkuverið og svæðið í kring að herlausu svæði og staðsetja friðargæsluliða þar.