Aukinn vopna­burður, þá einna helst hjá ungu fólki, er mikið á­hyggju­efni að sögn Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra. Hann segir tölu­legar stað­reyndir sýna fram á að út­köllum sér­sveitar hafi fjölgað, þó í meira magni vegna egg­vopna en skot­vopna.

Dóms­mála­ráð­herra segir að undir­búningur á breytingu vopna­laga hafi staðið yfir frá því snemma í vetur. „Það frum­varp er á minni mála­skrá fyrir þingið í haust, það er nú samt al­mennt þannig að reglur um þetta eru nokkuð strangar á Ís­landi,“ segir hann.

Hlut­falls­lega há vopna­eign eigi sér sögu­legar skýringar. „Vopna­eign er auð­vitað mikil hérna hlut­falls­lega, það á sér auð­vitað bara skýringar í okkar bænda- og veiði­manna­sam­fé­lagi, þannig að skot­veiðar eru kannski stærri hluti hjá okkur heldur en mörgum öðrum þjóðum og á sínar sögu­legu skýringar,“ segir Jón.

Þrátt fyrir það séu þörf og á­stæða fyrir því að skoða þessi mál, þá segir hann vera þörf á því að endur­skoða leyfi á­kveðinna tegunda vopna sem hafa vakið upp spurningar á­samt því að skoðað sé hvernig vopn eru skráð og geymd.

„Það er vitað að það eru mikið af vopnum sem jafn­vel aldrei voru skráð, afinn fellur frá eða faðirinn fellur frá og þá eru ein­hverjar byssur inni í skáp frá því í gamla daga og við þurfum að reyna að draga þetta fram og gefa þá fólki kost á því að skila þessu inn eða skrá þetta,“ segir Jón.

Hann segir ýmsa þætti eiga þörf á endur­skoðun í vopna­lög­gjöfinni, það sé sjálf­sagt að slípa hana til en hún sé að mörgu leiti góð hér­lendis.

Erfitt að ná utan um skráningu egg­vopna

Sér­sveit Ríkis­lög­reglu­stjóra er alltaf kölluð út þegar grunur er á vopna­burði. „Það eru bara tölu­legar stað­reyndir sem eru fyrir framan okkar augu að út­köllum sér­sveitar hefur fjölgað mjög mikið þar sem vopn koma við sögu,“ segir hann.

Hann tekur þó fram að það sé ekki mikil aukning á skot­vopnum í því sam­hengi, út­köllin séu flest vegna egg­vopna.

Jón segir það sé erfitt að ná utan um dreifingu og skráningu á egg­vopnum. „Þetta er til í eld­hús­skúffunni heima hjá öllum,“ segir hann.

„Ég kalla eftir sam­fé­lags­legri um­ræðu og á­byrgð í þessu jafn­framt því sem við þurfum að huga að lög­reglu­mönnum sem eru að glíma við aukinn vopna­burð í sínum störfum og stíga greið og á­kveðin skref til að tryggja öryggi þeirra þannig að þeir séu betur undir það búnir að tryggja öryggi borgara,“ segir Jón.

Grund­vallar­at­riði að gæta öryggi lög­reglu­manna

Að­spurður að því hvort hann vilji vopna al­menna lög­reglu­menn frekar segir Jón að við séum langt frá því að vera komin á þann stað og bætir við: „Það hefur verið gert mikið átak fyrir því á undan­förnum árum að þjálfa lög­reglu­menn í vopna­beitingu, en það eru til önnur úr­ræði.“

Hin úr­ræðin sem eru til skoðunar að grípa til séu varnar­búnaður lög­reglu­manna. „Það er mjög mikil­vægt í mínum huga að gæta öryggi lög­reglu­manna, það eru grund­vallar­at­riði í að þeir geti gætt öryggi borgara,“ segir Jón.

Ræddi vopna­lög­gjöf við ríkis­lög­reglu­stjóra

Jón segist hafa rætt við Sig­ríði Björk Gunnars­dóttur, ríkis­lög­reglu­stjóra, um meðal annars vopna­lög­gjöfina. „Síðan vorum við bara að ræða svona stöðuna sem er að birtast okkur í sam­fé­laginu og hvaða leiðir og úr­ræði við höfum til þess að bregðast við því á al­mennum for­sendum,“ segir hann.

Hann segist gera sér grein fyrir því að ekki sé hægt að koma í veg fyrir alla voða­at­burði sem eiga sér stað í mann­legu sam­fé­lagi, „en við viljum reyna að gera okkar besta til þess að öryggi borgaranna sé sem mest og að þeir hafi traust gagn­vart lög­reglu og búnaður hennar og mann­skapur hljóti þá þjálfun og hafi þann búnað til þess að geta sinnt sínu grund­vallar­hlu­verki,“ segir hann.

Vopna­lög­gjöf var einnig rædd á ríkis­stjórnar­fundi í morgun.