Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að Bandaríkin myndu styrkja Úkraínu með vopnum og hernaðaraðstoð að andvirði 800 milljónum dollara. Styrkurinn bætist þá við þann 6,1 milljarð dollara sem Bandaríkin hafa þegar heitið frá því að innrásin hófst í febrúar.
„Ég veit ekki hvernig þetta mun enda, en það mun ekki enda á því að Rússar sigri Úkraínu,“ sagði Biden við blaðamenn eftir leiðtogafund NATO í Madríd. „Úkraína hefur nú þegar komið þungu höggi á Rússland.“

Senda vopn og peninga
Þá lofuðu Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Emmanuel Macron forseti Frakklands einnig aukinni hernaðaraðstoð til Úkraínu. Bresk stjórnvöld lofuðu milljarði punda í hernaðarstyrk og ætla einnig að auka útgjöld til varnarmála. Macron sagði að Frakkar myndu senda sex CEASAR sprengjuvörpur til Úkraínu til viðbótar við þær tólf sem þeir hafa þegar sent.
Að sögn Boris Johnson virðist Pútín ekki vera reiðubúinn að draga úr hernaði sínum í Úkraínu eða semja um frið.
„Það virðist ekki vera neitt til að ræða um. Það er ekki bara það að úkraínsku þjóðinni myndi finnast mjög erfitt að semja, heldur er Pútín ekki einu sinni að bjóða neinn samning,“ sagði Johnson á blaðamannafundi eftir leiðtogafundinn.
Skrifa undir sáttmálann á þriðjudag
Áætlað er að finnsk og sænsk stjórnvöld muni staðfesta sáttmála NATO og þriðjudag í kjölfar þess að leiðtogar sambandsins tóku ákvörðun í gær um að bjóða ríkjunum tveimur í bandalagið. Þjóðþing og ríkisstjórnir nokkurra aðildarríkja eiga þó eftir að afgreiða umsóknirnar og samþykkja þær formlega.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO, greindi frá þessum áformum Svíþjóðar og Finnlands en að líkindum verður skrifað undir sáttmálann í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Um er að ræða eina afdrifaríkustu breytingu á skipulagi Atlantshafsbandalagsins og einn stærsta viðsnúning á öryggis- og varnarmálum Evrópu í áratugi.

Margar stórar ákvarðanir teknar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sagði leiðtogafundinn hafa verið afdrifaríkan enda voru margar stórar ákvarðanir teknar er varða framtíð bandalagsins og ástandið í Úkraínu.
„Það er auðvitað mjög margt að gerast á þessum fundi. Það er verið að samþykkja langtímastefnu fyrir bandalagið til næsta áratugar. Það er auðvitað verið að endurskoða viðbúnaðinn innan bandalagsins vegna stríðsins í Úkraínu. Það er verið að stórauka viðbúnað í austurhluta Atlantshafsbandalagsins, þannig að það er líka stór ákvörðun.“
„Í þriðja lagi er búið að taka ákvörðun um að bjóða Finnland og Svíþjóð velkomin í bandalagið, þannig að þetta eru þrjár mjög stórar ákvarðanir sem verðskulda heilan fund,“ segir Katrín og bætir við að innrásin í Úkraínu geri það að verkum að önnur mál séu sett til hliðar.