Á stjórnar­fundi Sorpu bs. í dag var sam­þykkt til­laga fram­kvæmda­stjóra um breytingar á fjár­festingar­á­ætlun Sorpu frá árinu 2019 til 2023 vegna við­bótar­kostnaðar sem komið hefur fram við tvö verk­efni sem nú er unnið að á vegum sam­lagsins. Annars vegar er um að ræða 17,7 prósenta við­bótar­kostnað við gas- og jarð­gerðar­stöð Sorpu í Álfs­nesi sem ráð­gert er að taka í notkun á næsta ári og hins vegar um 719 milljóna króna kostnaður vegna tækja­búnaðar í stækkaða mót­töku­stöð Sorpu í Gufu­nesi.

Fram kemur í til­kynningu frá Sorpu að á­kvörðunin fari nú í kynningar- og sam­þykktar­ferli á vett­vangi eig­enda Sorpu sem eru borgar-og bæjar­stjórnir á höfuð­borgar­svæðinu.

Aukin jarðvinna og meira magn byggingarefni

Í nýrri á­ætlun er gert ráð fyrir að kostnaður við gas- og jarð­gerðar­stöð Sorpu í Álfs­nesi aukist um 637 milljónir króna frá því sem á­ætlað var í fjár­festingar­á­ætlun 2019-2023, eða úr 3.610 m.kr. í 4.247 m.kr. Stærstur hluti við­bótar­kostnaðar er vegna aukinnar jarð­vinnu og meira magns byggingar­efna en ráð var fyrir gert. Segir í til­kynningu að það megi, meðal annars, rekja til þess að færa þurfti stöðina til á lóðinni á Álfs­nesi og skipta út því byggingar­efni undir botn­plötu sem var ó­full­nægjandi. Þá eru verð­bætur upp á 186 milljónir króna hluti af þessum við­bótar­kostnaði sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri á­ætlun.

2. Frá stækkun móttökustöðvar SORPU í Gufunesi.
Mynd/Sorpa

719 milljónir í tækja­búnað í Gufu­nesi

Kostnaður vegna tækja­búnaðar í stækkaða mót­töku­stöð SORPU í Gufu­nesi er um 719 milljónir króna. Gert var ráð fyrir þessum kostnaði í á­ætlun Sorpu fyrir árið 2018 en láðist að færa hann inn í fjár­festingar­á­ætlun ársins 2019.

„Þetta eru mis­tök sem urðu og það tók enginn eftir því að kostnaðurinn fór ekki á milli ára,“ segir Björn H. Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóri Sorpu, í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Fram kemur í til­kynningunni að á móti þessum kostnaði komi að byggingar­kostnaður vegna stækkunar stöðvarinnar, sem gert var ráð fyrir að yrði 605 milljónir króna, verður lægri eða á bilinu 361 til 418 milljónir króna.

„Sam­tals nemur við­bótar­kostnaður frá sam­þykktri fjár­festingar­á­ætlun vegna gas- og jarð­gerðar­stöðvar og vegna kostnaðar við tækja­búnað í mót­töku­stöð 1.356 m.kr. Sem fyrr segir var gert ráð fyrir stærstum hluta þessarar upp­hæðar í fjár­festingar­á­ætlun 2018 en það var ekki fært til bókar í fjár­festingar­á­ætlun 2019-2023,“ segir í til­kynningunni.

Semja við lánastofnanir

Fram­kvæmda­stjóri kynnti til­lögur sínar, til að bregðast við þessari breyttu stöðu, á fundi með eig­endum og stjórn Sorpu í bæði júlí og ágúst.

Í til­lögum hans er gert ráð fyrir því að samið verði við lána­stofnanir um skuld­breytingu og lengingu lána og að tekin verði ný lán upp á 990 milljónir króna til 15 ára. Einnig er gert ráð fyrir því að frestað verði kaupum á hluta tækja­búnaðar í mót­töku­stöðina í Gufu­nesi og að nokkrum öðrum ó­skyldum fjár­festingum verði frestað.

Á stjórnar­fundi Sorpu í morgun var bókað að fara þurfi yfir verk­ferla fé­lagsins og var for­manni og vara­for­manni stjórnar falið að fá ó­háðan aðila til að fram­kvæma út­tekt á starf­semi fé­lagsins og leggja til­lögur þar að lútandi fyrir næsta fund stjórnar.

„Það er ljóst að þau mis­tök, sem urðu við gerð síðustu fjár­festingar­á­ætlunar eru ó­heppi­leg. Þau kalla á breytt vinnu­lag hjá okkur svo koma megi í veg fyrir að slíkt geti endur­tekið sig. Til að bregðast við þessu stefnir fyrir­tækið að því að draga úr fjár­festingum eftir því sem hægt er og semja við lána­stofnanir um nýja fjár­mögnun. Sorpa er stöndugt fyrir­tæki og sú leið sem farin verður krefst ekki að­komu sveitar­fé­laganna í formi nýrra stofn­fjár­fram­laga,“ segir Björn H. Hall­dórs­son fram­kvæmda­stjóri Sorpu bs., í til­kynningu.

Björn H. Hall­dórs­son er framkvæmdastjóri Sorpu bs.
Mynd/Sorpa