Færri mátu and­lega heilsu sína góða og töldu sig mjög hamingju­sama árið 2020 en árið á undan. Auk þess greindu fleiri frá ein­mana­leika. Frá þessu er greint í nýjasta Talna­brunni em­bættis land­læknis þar sem farið var yfir and­lega heilsu, streitu, hamingju og vel­sæld, meðal annars.

Í talna­brunninum kemur fram að and­leg heilsa var verst meðal ungra kvenna. Alls mátu 72 prósent Ís­lendinga, eða þrír af hverjum fjórum, and­lega heilsu sína góða eða mjög góða í fyrra. Hlut­fallið lækkaði úr 76 prósent árið áður.

Árið 2019 mátu 78 prósent karla og 75 prósent kvenna and­lega heilsu sína góða eða mjög góða en árið 2020 var hlut­fallið komið niður í 73 prósent hjá körlum og 70 prósent hjá konum.

Eins og má sjá á myndinni hér að neðan var einnig tals­verður munur á aldurs­hópum og var staðan verst hjá yngsta aldurs­hópnum, sér­stak­lega konum.

Munur er eftir aldri og á kynjum.
Mynd/Embætti landlæknis

Fer fjölgandi sem fá nægan svefn

Þá kemur fram að hæg­fara já­kvæð þróun sé á svefni en að tveir af hverjum þremur full­orðnum (69%) fái nægan svefn, sem er frá sjö til átta klukku­stundir á nóttu.

Árið 2018 var hlut­fallið 66 prósent, 68 prósent árið 2019 og 69 prósent árið 2020. Þeim sem fá of lítinn svefn hefur að sama skapi fækkað úr 29 prósent árið 2018 í 27 prósent árið 2019 og 25 prósent árið 2020.

Segir að þessi já­kvæða þróun komi fram hjá báðum kynjum en þó séu að­eins fleiri karlar en konur sem sofa of lítið.

Streita mest meðal kvenna

Mælingar úr vöktun em­bættis land­læknis hafa í­trekað sýnt að fleiri konur en karlar greina oft eða mjög oft frá mikilli streitu í dag­legu lífi. Árið 2020 var þetta hlut­fall 28 prósent hjá konum en 22 prósent hjá körlum og 25 prósent í heild. Þá kemur fram að tals­verðan mun má sjá eftir aldri og kyni

Í talna­brunninum kemur einnig fram að hamingja mælist minnst meðal ungs fólks. Árið 2020 töldu 58 prósent full­orðinna Ís­lendinga sig mjög hamingju­sama (skora 8-10 á hamingju­kvarða frá 1-10) og mátti sjá mark­tækan mun frá árinu áður þegar hlut­fallið var 61 prósent.Meðal kvenna var hlut­fallið 60 prósent en karla 56 prósent.

Á­fram mælist hamingja minnst meðal yngsta aldurs­hópsins en mest hjá þeim elsta en tals­verð fækkun hefur verið í hópi ungra kvenna (18-24 ára) sem telja sig mjög hamingju­samar yfir tíma en hlut­fallið fer úr 57 prósent árið 2018 í 44 prósent árið 2020.

Ekki kemur fram kynja­munur í yngsta aldurs­hópnum en í aldurs­hópunum 35-54 ára skilja um 10 prósentu­stig kynin að, þar sem fleiri konur telja sig mjög hamingju­samar en karlar.

Aukinn ein­mana­leiki meðal ungs fólks

Árið 2020 sögðust 12 prósent full­orðinna finna oft eða mjög oft fyrir ein­mana­leika sem er lítils háttar en töl­fræði­lega mark­tæk aukning frá 2019 þegar hlut­fallið var 10 prósent.

Segir í talna­brunni að þróunin gæti verið hluti af eðli­legu flökti á milli ára þar sem svipaðar tölur hafi komið fram árið 2018 og 2020. Þau segja að fleiri konur en karlar hafi greint frá ein­mana­leika en mestur kynja­munur hafi komið fram í aldurs­hópunum 45-64 ára.

Í saman­tekt segir að árið 2020 hafi verið sér­stakt í ljósi heims­far­aldursins og það hafi haft í för með sér ýmsar sam­fé­lags­breytingar. Ekki sé ljóst hvort þessar breytingar megi sér stak­lega rekja til CO­VID-19.

Hægt er að kynna sér niður­stöður Talna­brunnsins betur hér á heima­síðu em­bættis land­læknis.