Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að staða landbúnaðarins, starfsumhverfi hans og framtíðarhorfur dreifbýlis sé ofarlega í huga fólks víða um landið. Eftir að hafa rætt við bændur um allt landi sé það ljóst að eitt af því sem þyrfi að rýna í sé starfsumhverfi afurðastöðva í kjötiðnaði. Það sé mikið hagsmunamál fyrir sauðfjárbændur.

Núverandi regluverk eru flókin og draga úr möguleikum bænda til nýsköpunar að mati Þórarins.

„Heimavinnsla afurða getur orðið mikilvæg stoð í því að efla nýsköpun og þróa afurðir. Lög um heimaslátrun og vinnslu eru flókin og draga úr möguleikum bænda til nýsköpunar. Það má slátra búfé heima til heimanota en ekki til sölu. Erlendis er heimilt að stunda heimavinnslu frá A til Ö,“ sagði Þórarinn Ingi á þingfundi í gær. Þar tók hann dæmi um hreindýr til að sýna fram á hversu öfugsnúið regluverkið sé.

„Hreindýrum er lógað fjarri kjötvinnslum úti í guðsgrænni náttúru. Dýrið er síðan flutt að kjötvinnslunni þar sem lokafrágangur á sér stað í samræmi við reglur. En þegar kemur að því að lóga sauðkind og vinna vöru til neytenda vandast málið. Svarið er: Nei, það má ekki. Ef markmiðið er að efla nýsköpun í landbúnaði liggur beinast við að aðlaga regluverkið að nútímanum. Þannig auðveldum við bændum að bæta afkomu sína og ekki veitir af,“ sagði Þórarinn Ingi.

Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekki á Austurlandi.
Mynd/Gilsárstekkur

Hægt að markaðssetja til ferðamanna

„Það er mikill áhugi fyrir heimavinnslu. Ekki spurning. Það liggur við að maður bíði eftir þessu,“ segir Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekki í Breiðdal, í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að að heimaslátrun væri góður valkostur fyrir hana þar sem hún þurfi að senda sín lömb gríðarlega vegalengdir.

„Með heimaslátruninni gæti ég auðveldlega markaðsett mína lífræna vöru.“

„Það er mjög langt í sláturhús. Ég sendi sláturlömbin mín einhverja 300 til 400 kílómetra. Bara með hliðsjón af því, þá já!“ Auk vegalengdarinnar er hluti af leiðinni eftir malarvegi.

„Þar sem ég er stödd er malarvegurinn heillangur. Ég lenti í því eitt haustið að heimreiðin gaf sig að hluta til. Það munaði ekki miklu að sláturbílnum velti. Þetta slapp ótrúlega vel en það er alls ekki gefið,“ segir Guðný. Hún segir að með heimaslátrun væri hægt að markaðssetja spennandi vöru til ferðamanna á Austurlandi.

„Austurlandið er ágætis markaðssvæði. Hér eru mikið af ferðamönnum á sumrin. Ef maður gæti markaðssett þetta á þann veg að þetta sé heimaslátrað á búinu þá tel ég mikla sókn þar.“

Guðný bendir á sláturhús séu ekki öll reiðubúin til að taka við vöru frá bændum sem stunda lífræna ræktun. Þá þurfi að slátra því sauðfé og hafa það aðskilið frá öðrum sem ekki eru lífrænt ræktuð.

„Ég veit af sauðfjárbændur sem hafa áhuga á því að fara út í lífræna ræktun en hafa heyrt þetta. Ágóðinn hverfur því vörunni ekki haldið sér á sláturhúsinu. Með heimaslátruninni gæti ég auðveldlega markaðsett mína lífræna vöru.“

Sumar á Skarðaborg.
Mynd/Skarðaborg

Þurfum ekki að finna upp hjólið

Sigurður Á Þórarinsson og Helga Helgadóttir eru sauðfjárbændur á Skarðaborg í Reykjahverfi. Þau settu á laggirnar vottaða kjötvinnslu árið 2010. Dýrin eru slátruð á Húsavík, þar sem það fær heilbrigðisvottun, og er hluti af kjötinu unnið heima á bænum hjá Sigurði og Helgu og selt beint til neytenda.

„Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Við þurfum bara að ganga í málin.“

„Við tökum nánast allt ærkjötið þar sem við fengum svo lítið borgar fyrir það. Það voru tæpar tvö þúsund krónur fyrir ærskrokk sem vegur 25 kíló,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið. Hann segist finna fyrir auknum áhuga á heimaslátrun meðal bænda en þó séu einhverjir óprútnir aðilar sem eyðileggi fyrir öðrum.

„Það eru einhverjir sem hafa verið að selja þetta svart og spilla fyrir öðrum. Við í bændasamfélaginu erum alfarið á móti því.“ Bændur hafa kallað eftir breytingum á reglugerðum í landbúnaði á Íslandi. Sigurður segir ekki nauðsynlegt að finna upp hjólið. Það væri til dæmis hægt að taka Norðmenn til fyrirmyndar.

Heimavinnslan á Skarðaborg.
Mynd/Skarðaborg

„Þetta þekkist í Noregi. Þar eru meira að segja svokallaðir sláturbílar, sem eru vottaðir sem sláturhús, sem fara á milli bæja. Það væri hægt að gera samskonar hér. Við þurfum ekki að finna upp á hjólið. Við þurfum bara að ganga í málin,“ segir Sigurður.

Aðspurður hvers vegna heimaslátrun hafi ekki verið sett á laggirnar hér á landi segir Sigurður úrgang vera eitt af þeim málum sem eigi eftir að leysa.

„Það er alltaf spurning hvað á að gera við allan úrganginn. Ég velti fyrir mér hvort það hafi strandað á því máli. Það þurfa að vera ákveðin regluverk með urðun varðandi smitleiðir og annað. Við förum með öll beinin í sorpstöðina á Húsavík en það er spurning hvernig þessu yrði háttað með heimaslátrun.“

Þórarinn Ingi þingmaður segir að auðsynlegt sé að endurskoða regluverkið sem landbúnaðurinn starfar eftir ef ekki á illa að fara. Sigurður segir að með breytingum væri samt aldrei farið alfarið í heimavinnslu.

„Að vissu verður ekki hægt að fara alfarið í heimavinnslu; að allir vinni heima og ekkert færi í sláturhús. Þannig verður það aldrei.“