Vaxandi áhugi er á meðal erlendra þjóða um kaup á grænni orku frá Íslandi vegna yfirvofandi orkukrísu í Evrópu og víðar um álfur.

„Það er orkukrísa í kringum okkur og við, sem getum orðið aflögufær, verðum að spyrja okkur hver ábyrgð okkar er í orkuskortinum sem blasir hvarvetna við,“ segir Guðmundur Þorbjörnsson, sérfræðingur á verkfræðistofunni Eflu, sem staðfestir þann aukna áhuga sem orkusölu héðan af landi er nú sýndur. „Það rignir inn fyrirspurnum,“ segir hann.

Íslenska raforkukerfið framleiðir nú um 2,5 gígavött. Annað eins þarf til orkuskipta hér á landi, að mati Guðmundar, ef miðað er við raunhæfar forsendur og eðlilega framþróun samfélagsins. „En jafnvel eftir það getum við bætt við verulegri orkuframleiðslu til útflutnings og mætti þar miða við önnur 5 gígavött,“ segir hann og horfir til vindorkunnar, sem sé líklega langstærsta tækifæri landsmanna til að framleiða græna orku með skynsamlegum hætti á landi og á hafi úti.

„Í mínum huga eigum við ekki bara að ræða um orkuskipti innanlands heldur líka tækifæri okkar til að verða framleiðendur á heimsvísu,“ bætir hann við og segir sæstreng ekki einu forsenduna til þess, því græn raforka sem umbreytt hefur verið í vetni og vetnistengdar afurðir sé raunhæf og mjög eftirsótt útflutningsvara.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir forgangsmál að sinna orkuþörfum landsmanna til eigin nota, en hann tekur þó fram að mörgum spurningum sé ósvarað, sérstaklega hvað varði rafeldsneyti.

„Það má vera að við þurfum að skipta við aðra á eldsneyti í framtíðinni, að því gefnu að við framleiðum ekki allar tegundir. En aðalatriðið er að við erum að forgangsraða í orku fyrir Ísland og það er mjög stórt verkefni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.