Heldur hefur bætt í úrkomu á Seyðisfirði og enn þykir ekki óhætt fyrir íbúa á rýmingarsvæðum að huga að húsum sínum.

Mikil úrkoma var á Seyðisfirði í gærkvöldi og í nótt og rýmingar því enn í gildi. Rýmingarsvæðið var stækkað í gær og þurftu fleiri að yfirgefa heimili sín. Tíu manns dvöldu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í nótt.

Líkt og greint var frá í morgun féllu tvær aurskriður úr Nautaklauf í nótt og færði fyrri skriðan timburhúsið Breiðablik um 50 metra. Húsið sem stendur við Austurveg var mannlaust en það var eitt af fyrstu húsunum sem skriðurnar umlyktu á þriðjudag. Þá fylltist kjallari þess af aur.

Húsið staðnæmdist nærri bensínstöð Orkunnar.
Veðurstofan/Bjarki Borgþórsson
Hér sést hvar húsið stóð upphaflega og hvar það staðnæmdist. Myndin var tekin á miðvikudag og sýnir eftirleik fyrstu aurskriðunnar á þriðjudag.
Björgunarfélagið Ísólfur/Daníel Örn Gíslason

Hreinsunarstarf gengur hægt

Fram kemur í tilkynningu frá almannavörnum að hreinsunarstarf gangi nú hægt þar sem mörg svæði séu enn lokuð. Vinna sé þó í gangi og metið reglulega hversu mikið og hratt hægt er að stækka vinnusvæðið.

Þá er til mats hvenær verður óhætt fyrir íbúa á rýmingarsvæðum að huga að húsum sínum og verður ákvörðun kynnt um leið og það þykir óhætt.

Rýmingar á Seyðisfirði verða áfram í gildi að minnsta kosti þar til á morgun. Gerð hefur verið áætlun um frekari rýmingar og útvíkkun á hættusvæði ef aðstæður versna.

Svona var staðan í morgun.
Mynd/Ómar Bogason

Í nótt dró smám saman úr rigningu á Austfjörðum en heldur hefur bætt í aftur eins og áður segir. Appelsínugul úrkomuviðvörun Veðurstofu Íslands fyrir Austfirði gildir til klukkan 20 í kvöld og þá tekur við gul viðvörun til klukkan 09:00 á laugardagsmorgun.

Samhliða því er í gildi áframhaldandi hættustig vegna skriðufalla á Seyðisfirði. Eru íbúar þar áfram hvattir til að halda sig innandyra og óska frekari upplýsinga hjá vettvangsstjórn almannavarna ef þurfa þykir.